150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mikið að gera þessa dagana. Ég virði það við þingmanninn að hafa ekki haft tíma til að lesa 102 blaðsíðna skýrslu spjaldanna á milli. Ég hef sjálfur þurft að glugga í hana aftur. Ég las hana betur fyrir þó nokkru síðan. Maður þurfti að rifja upp þessi atriði. Það sama á við um rannsóknina sem hv. þingmaður vísaði í. Ég þarf að rifja hana upp til að grafa upp rökin sem ég fann þar og hafði eitthvað við að athuga. Það verður bara áframhald á þeirri umræðu. Ég hlakka til þess.

Það sem hefur aftur á móti komið fram í umræðum í fjárlaganefnd, og t.d. í umsögn frá fjármálaráði eins og ég rifjaði upp áðan, er að auknar skuldbindingar og framkvæmdir hins opinbera minnka ekki endilega aðhaldsstigið ef fyrirséður ábati kemur á móti. Í samhenginu sem hv. þingmaður nefnir er vissulega eitt atriði: Hvað verður gert við stofnunina í Keldnalandi? Það er mismunandi hver kostnaðurinn við það verður eftir því hvaða ákvörðun er tekin og þar fram eftir götunum. Upphæðirnar þar eru samt smámunir miðað við heildarupphæð ábatans sem við sjáum fram á við að fara í framkvæmdina. Það eru hundruð milljóna á móti fáum milljörðum. Væntanlegur ábati af framkvæmdunum dekkar þennan mun mjög auðveldlega.

Það er ábyrgðarlaust, myndi ég segja, að fara ekki í ábatasamar framkvæmdir fyrir lánið sem við erum að taka frá framtíðinni þegar ábatinn sjálfur borgar lánið upp í staðinn fyrir að það verði ákveðinn skuldabaggi á framtíðarkynslóðum. Í öllum sviðsmyndum sem við sjáum, miðað við mögulegan ábata, (Forseti hringir.) miðað við rekstrarkostnað, er þetta verkefni (Forseti hringir.) augljós kostur. Hver svo sem nákvæm útfærsla verður er ábatinn augljós.