150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér mál er varðar samvinnuverkefni í samgöngum, kallað PPP í daglegu tali með vísan í enskt heiti samvinnuverkefna sem þessara, svokallaðra „Public-Private Partnership“. Eins og í svo mörgu öðru sem við ræðum í tengslum við samgöngumál þessi misserin má segja að markmiðið sé að leita leiða til að auka umfang framkvæmda, fjölga framkvæmdunum sem farið er í og flýta þeim. Þetta er eitt púslið í því spili. Ég er ásamt hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni á minnihlutaáliti 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem hv. þm. Karl Gauti Hjaltason fór yfir hér fyrr í umræðunni. Ég ítreka að sjónarmið okkar tveggja eru römmuð þar inn og við töldum rétt að halda þeim til haga gagnvart þessari umræðu. Til viðbótar við það sem kemur fram í minnihlutaálitinu sem ég nefndi hér langar mig til að koma sérstaklega inn á og ítreka þau sjónarmið sem ég hef haldið fram, og gerði til að mynda í 1. umr. um málið, að í grunninn er ég er sammála því að þetta prinsipp, að fara í þessi samvinnuverkefni, verði valkostur. Það er prýðisgóð reynsla af Hvalfjarðargöngunum og Speli. Aðeins á eftir að koma betur í ljós hvernig útfærslur Vaðlaheiðarganga gera sig. En það er alveg sjálfsagt að þetta form verði til staðar fyrir framkvæmdir sem henta inn í slíkt módel.

Mig langar hér við þessa umræðu að ítreka gagnrýni mína á það hvaða leið hæstv. samgönguráðherra ákvað að velja hvað útfærslu málsins varðar, þ.e. í rauninni að afmarka þetta tiltölulega þröngt með þessum sex tilgreindu verkefnum sem eru auðvitað eðlisólík. Þrjú þeirra eru þannig að þau eru hefðbundin vegagerðarverkefni sem eru nærri í tíma og gætu í sjálfu sér verið inni á samgönguáætlun með hefðbundnum hætti; vegurinn um Öxi, Hornafjarðarfljótið og brú yfir Ölfusá. Hin þrjú verkefnin eru annarrar gerðar, verulega tæknilega flóknari, lengra í framtíðinni gagnvart skipulagsmálum, umhverfismálum og þar fram eftir götunum. Það er láglendisvegur og jarðgöng um Reynisfjall, Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Ég kem sérstaklega inn á tvöföldun Hvalfjarðarganga á eftir. Ég hef ákveðnar efasemdir um þá hugmynd margra hluta vegna en geymi þá umræðu örlítið.

Ég held að skynsamlegra hefði verið að útfæra þessa löggjöf sem rammalöggjöf sem tæki á því hvernig formið væri, hvernig það væri skipulagt og því stillt upp. Í framhaldinu tæki þingið síðan ákvörðun um hvert og eitt verkefni, til að mynda með þingsályktun, og veitti heimild til að vinna tiltekin verkefni á grundvelli slíkrar afgreiðslu. Það held ég að hefði verið mun farsælla en að setja þetta í þann farveg sem hæstv. samgönguráðherra ákvað að gera. En það er hlutur sem þing síðari tíma hafa tækifæri til að vinna með og færa til betri vegar.

Ég vil jafnframt gagnrýna það að akkúrat núna eru í meðförum í þinginu þrjú mál þar sem er komið inn á gjaldtöku með einum eða öðrum hætti. Það er í samgönguáætluninni, sem var útrædd fyrir þremur, fjórum sólarhringum, það er í ohf.-málinu, sem sagt málinu um að veita fjármálaráðherra heimild til að stofna opinbert hlutafélag um verkefni samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu, og síðan í þessu máli. Þannig að á þremur stöðum er verið að ræða og klára hér í þinginu mál sem öll hafa mismunandi útfærslu á gjaldtöku sem eitt af kjarnaatriðum sínum. Ef eitthvert vit væri í og hlutir unnir í réttri röð væri auðvitað búið að forma rammalöggjöf um það hvernig gjaldtökunni gæti verið háttað þannig að skynsamlegast væri svo að ekki væri verið að finna upp hjólið í hverju tilviki fyrir sig. Það lægi fyrir hvernig Alþingi sæi fyrir sér að heimilt væri að halda á þessum gjaldtökuþáttum og síðan ynnust önnur mál út frá þeirri nálgun. Það held ég að hefði verið skynsamlegri röð hlutanna. En því miður er það ekki að takast og mér finnst þetta svolítið bera keim af því, eins og með svo margt annað þessa dagana, að verið sé að byrja á öfugum enda. Þetta er svolítið eins og það að í gær var kynnt hvernig stólarnir í biðskýlum borgarlínu eiga að líta út en á sama tíma er ekki til rekstraráætlun, svo að ég rifji það nú upp hér í þessu samhengi. Ég gagnrýni aftur að verið sé að vinna hlutina í öfugri röð.

Það eru tvö efnisatriði, tveir parametrar, í þessu máli sem ég held að geti skapað snúna stöðu að vinna úr á síðari stigum, þá sérstaklega annar þeirra. Fyrst er það að verkefni hafi að hámarki 30 ára endurgreiðslutíma. Ég held að ef við horfum á líftíma framkvæmda, vaxtakostnað og annað slíkt væri skynsamlegt að hafa bara sem mest svigrúm til að meta það gagnvart hverju og einu verkefni. En það er í sjálfu sér ekki frágangssök. Það sem er kannski snúnara í þessu er það sjónarmið sem kemur fram, held ég, á hinum nýju stöðum í frumvarpinu, þ.e. að vegfarendur hafi val um aðra leið. Þetta er sjónarmið sem var haft í huga þegar sérlög um lagningu Hvalfjarðarganga, stofnun Spalar og það allt saman voru samþykkt á Alþingi. Þá var sjónarmið um að vegfarendur hefðu aðra leið, í því tilviki að keyra fyrir Hvalfjörð. Auðvitað er raunveruleikinn sá að fyrir fólk sem sækir til að mynda vinnu frá Akranesi, Borgarnesi eða einhvers staðar úr sveitunum til höfuðborgarsvæðisins er það ekkert annar valkostur að keyra Hvalfjörðinn á hverjum degi. Auðvitað blasir það við ef horft er á það með nokkurri sanngirni. Ef rökin eru þau að það sé vissulega önnur leið um Hvalfjörð fyrir þá sem ekki vilja borga gjald í Hvalfjarðargöngin þá er raunverulega önnur leið á alla staði og í tengslum við öll verkefni. Ég hef stundum sagt það hér, þó að það sé svolítið í gríni, að bifreiðar hafi farið til Hafnar í Hornafirði fyrir þann tíma að hringvegurinn var kláraður. Menn fóru bara norður og austur fyrir. Þannig að það er alltaf önnur leið. Ég hef því ekki haft sannfæringu fyrir því að nálgun hæstv. samgönguráðherra í þessu máli sé skynsamleg, að njörva þetta niður með þessum hætti.

Kem ég þá að því sem snýr að Hvalfjarðargöngunum. Í fyrsta lagi held ég að tvöföldun Hvalfjarðarganga sé töluvert langt inni í framtíðinni ef þörf verður á þeirri framkvæmd á einhverjum tímapunkti. Ég held að miklu framar sé mikilvægi þess að breikka veginn um Kjalarnesið upp að göngum, sem er auðvitað í vinnslu, síðan áfram frá göngum og upp í Borgarnes og áfram eftir atvikum. Það hefur miklu meiri áhrif upp á umferðarflæði og öryggi að gera en ný Hvalfjarðargöng samsíða þeim sem nú eru til staðar. Það hefur oft verið sagt í umræðunni að það sé kvöð út frá Evrópureglum að breikka göngin eftir að ákveðnu umferðarmagni er náð. Sú staðhæfing er byggð á misskilningi. Evrópska regluverkið á við göng sem voru opnuð eftir að Hvalfjarðargöngin voru opnuð. Þannig að það er misskilningur.

Varðandi mögulega gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum í framtíðinni verði önnur göng gerð verður að hafa í huga að það er búið að borga upp núverandi Hvalfjarðargöng með gjaldtöku. Þau voru greidd upp að fullu og gjaldtaka lögð af fyrir rétt rúmu ári. Þá koma upp sjónarmiðin: Ef gerð verða ný göng undir þessum formerkjum er þá ætlunin að rukka bara í þau en hafa hin áfram ókeypis? Rukka sem sagt bara í aðra áttina? Er önnur leið þarna? Á aftur að færa rök fyrir því að Hvalfjörðurinn sé raunverulega önnur leið? Mitt svar við þeirri spurningu er: Nei, ef menn til að mynda ákveða að hafa viðmið um aðra leið þannig að það hindri ekki atvinnusókn á milli svæða. Ég held að það séu sjónarmið uppi varðandi Hvalfjarðargöngin og hvernig mögulegri gjaldtöku yrði háttað og þar fram eftir götunum sem hafa bara alls ekki verið hugsuð til enda varðandi þá nálgun hæstv. ráðherra að önnur leið yrði að vera fær. Ég ítreka bara að það er búið að borga núverandi Hvalfjarðargöng upp. Vegfarendur eru ekki að fá styttri vegalengd. Vissulega verður umferðarflæðið betra í nokkra klukkutíma nokkra daga á ári. Mér er það til efs að það verði talið réttlæting fyrir gjaldtöku allan sólarhringinn, alla daga ársins, að losna við örlítið hökt um verslunarmannahelgi og sitt hvorum megin við helgar yfir hásumarið. Þessi sjónarmið þurfa því að koma til skoðunar. Ég held að þetta verði ekki gert af neinu viti nema stjórnvöld nái utan um og leggi línurnar um heimildir og nálgun hvað slíka gjaldtöku varðar heilt yfir, ekki í þremur mismunandi málum eins og í þessu tilviki eru til meðferðar hjá þinginu.

En ég læt þetta duga hvað sjónarmið um Hvalfjarðargöngin áhrærir. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira en orðið er en ég vil bara ítreka að við í Miðflokknum erum í prinsippinu fylgjandi því að þessi leið sé fær, að hægt sé að stofna til samstarfs einkaaðila og opinberra aðila um tilteknar gerðir framkvæmda. Á endanum gengur þetta allt út á að auka umfang nýframkvæmda og koma verkefnum áfram, flýta þeim. Það þarf líka alltaf að hafa í huga að um leið þarf að tryggja að þróun og nýjar hugmyndir sem einkaaðilar geta mögulega komið með að borðinu fái ígrundaða skoðun þannig að öll þessi verkefni séu unnin af mestu hagkvæmni og á sem bestan máta út frá umferðarflæði, öryggismálum og fjárhagslegum sjónarmiðum. Ég læt þetta duga að sinni.