150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er ánægjulegt að heyra áhuga hv. þingmanns á því að greiningar og áætlanir liggi fyrir hvað þetta mál varðar. Áhuginn var minni í málum er tengdust borgarlínuumræðu fyrir stuttu. En það er annað mál.

Ég held að hluti af vandamálinu hvað þessi sex verkefni varðar sé sá að sérstaklega þrjú þeirra eru bara hefðbundin vegagerðarverkefni sem ynnust að mínu mati best á þeim forsendum að þau væru í hefðbundnum takti. En þá liggur regluverkið þannig að lög um opinber fjármál setja mönnum ákveðnar skorður, eins og þau eru útfærð í dag. Hluti af þeirri vegferð er auðvitað að, ég ætla ekki að segja að komast fram hjá því regluverki en aðlaga fjárhagslegt utanumhald að þeim heimildum eða ekki heimildum sem þar eru. Ég held að í þessum þremur verkefnum, sem eru í eðli sínu bara hefðbundin vegagerðarverkefni, sé aðkoma einkaaðila með mjög sambærilegum hætti og verið hefur. Vegagerðin heldur utan um útboð. Einkaaðilar bjóða í verkið og vinna það. Mér heyrist á öllu að það sé verið að horfa til þess að komi gjaldtaka til verði hún undir hatti ríkissjóðs með einum eða öðrum hætti, ekki einkaaðilans sem framkvæmir.

Þannig að vísan hv. þingmanns í 20–30% kostnaðarauka er í samhengi við allt öðruvísi útfærð verkefni, ef ég hef skilið þá umsögn og umræðu með sama hætti og hv. þingmaður. Ég hef væntanlega ekki skilið hana með sama hætti og hann (Forseti hringir.) en ef ég skildi hana rétt er þar um að ræða allt öðruvísi verkefni en þau hefðbundnu vegagerðarverkefni sem um ræðir hér. Þá eru eftir hin þrjú og ég kem kannski að þeim í seinna andsvari.