150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[16:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að tala um atriði sem kom fram í andsvörum hjá mér áðan, bara til að hafa það skýrara í umræðunni, þ.e. hvernig við högum framkvæmdum eða áætlanagerð varðandi samgöngur í landinu. Ég talaði þar um glansmynd samgangna. Hvernig væri landið, skipulag samgangna í landinu, skipulag hafna, flugvéla og almenningssamgangna, vegakerfið fyrir fjölskyldubílinn og allt þetta, hvernig væri besta útgáfan af slíku kerfi, með öllum göngum og öllu? Hvernig væri ef öll landshlutasamtök og sveitarfélög kæmu saman og settu upp sitt flottasta samgöngukerfi fyrir hvert svæði og því væri púslað saman í þessa glansmynd samgangna? Hvernig myndi hún líta út?

Sú glansmynd ætti að vera markmið okkar. Þegar við höfum það markmið til að miða við er miklu auðveldara að fara frá núverandi aðstæðum, núverandi ástandi, yfir í glansmyndina. Við sjáum svo auðveldlega hvaða breytingar þarf miðað við hvernig staðan er núna og hvernig stöðu við viljum hafa. Hverjar eru auðveldustu breytingarnar frá núverandi stöðu yfir í bestu stöðuna? Þannig gætum við á mjög fljótlegan hátt unnið okkur í haginn og í áttina að því að ná alla vega að mestu leyti glansmyndinni eins og við viljum hafa hana.

Að sjálfsögðu breytast tímarnir og við aðlögum glansmyndina að einhverju leyti. Við erum að elta ákveðið skotmark. Ég tala oft um hið fullkomna samfélag eða útópíu, eins og hún er oft kölluð. Við náum henni aldrei. Þessi svokallaða útópía er færanlegt skotmark því að ef við náum einhvern tímann þangað áttum við okkur á því að við viljum eitthvað annað og meira. Það hefur orðið til ný útópía sem við viljum ná í staðinn. Núverandi samfélag væri t.d. alveg örugglega útópía einhverra sem bjuggu hér fyrir 500 árum. Þeir gátu örugglega ekki einu sinni ímyndað sér þá útópíu, gátu ekki haft hana sem markmið af því að svo margt annað breyttist á leiðinni. Útópían þeirra varð mögulega úreld eða náðist og við fórum einfaldlega fram hjá henni.

En ef við höfum ekki þetta markmið er öll áætlanagerð okkar miklu ómarkvissari. Þetta endurspeglast rosalega vel í fyrirspurn um vegtegundir á Íslandi sem ég sendi samgönguráðherra. Það var einfaldlega spurning varðandi alla vegina sem við eigum í allri þessari góðu og löngu vegaskrá, þ.e. hvernig vegur er akkúrat á milli staða A og B? Það stendur nefnilega í vegaskrá hvernig vegur á að vera á milli A og B en það stendur ekki hvernig vegur er þar á milli. Það fannst mér alveg gríðarlega merkilegt þannig ég ákvað að spyrja samgönguráðuneytið eða Vegagerðina. Hún hlaut alla vega að vita hvernig vegur hefði verið lagður vegna þess að það er jú yfirleitt Vegagerðin sem byggir alla vega vegi. Svarið sem ég fékk var: Við vitum það ekki.

Ein af ástæðunum fyrir því að ég spurði um þetta og að þetta vakti athygli mína var sú að þegar fjallað var um ákveðin samgöngumál í fjárlaganefnd komu fulltrúar stjórnsýslunnar á fundi nefndarinnar og fjölluðu einmitt um vegtegundir, þetta var í kringum Teigsskóg o.s.frv., og hve lítið kostaði að uppfæra ákveðinn vegarkafla af því að hann væri af þeirri tegund sem myndi bera þá umferð sem þyrfti. En þetta var æskilega vegtegundin. Alvöruvegtegundin var hins vegar verri þannig að það kostaði miklu meira að byggja þann veg en ákveðnir umsagnaraðilar höfðu gert ráð fyrir. Og þá spyr ég: Bíddu, fyrirgefið, hvernig er þetta bara almennt? Fulltrúi stjórnsýslunnar giskaði — þetta er sagt án nokkurrar ábyrgðar minnar eða viðkomandi aðila — en besta sérfræðigisk okkar var að u.þ.b. helmingur vega í vegaskrá væri ekki af æskilegri vegtegund. Við höfum í rauninni ekki hugmynd í hvernig ástandi helmingur vega er.

Þeir sem búa á svæðunum vita tvímælalaust af því, ekkert mál. Þeir vita alveg hvaða vegi þarf að byggja upp o.s.frv. Þess vegna væri mjög góð leið fyrir þingið að vinna meira út frá samgönguáætlunum landshluta þar sem hver landshluti fyrir sig hefur þekkingu á viðkomandi svæði og veit alveg nákvæmlega hvar þarf nauðsynlega að fara í ákveðin viðhaldsverkefni og augljós uppbyggingarverkefni. Við ættum miklu frekar að fjármagna hugmyndir sem landshlutarnir hafa, sem eru að sjálfsögðu í áttina að glansmynd fyrir hvern landshluta.

En það þarf að tengja saman Vegagerðina og ýmislegt. Svo detta inn ýmis risastór verkefni sem menn hafa kannski ekki alveg bolmagn til að vinna að með slíkri fjármögnun. Þau þarf kannski að vinna á öðrum forsendum. En með því að hafa þessa glansmynd, sem ég tala um getum við gert áætlun um það hvernig við vinnum í áttina að henni. Tilraunir sem verið er að vinna að í samgönguáætlun um að hafa t.d. jarðgangaáætlun eru mjög sniðugar. Þær eru alveg tvímælalaust í áttina að glansmyndinni en ná ekki alveg nógu langt. Samgönguáætlunin er bara til 15 ára, jarðgangaáætlun væri væntanlega eitthvað svipað. En þetta er tvímælalaust í áttina. Það vantar samt lokatakmarkið þegar allt kemur til alls.

Í samgönguframkvæmdum og í samgönguáætlunum erum við í rauninni að vinna samkvæmt okkar bestu ágiskun. Ég kvitta alveg upp á að sú ágiskun er nokkuð góð. Hún er hins vegar tiltölulega ónákvæm og þeim göllum háð, alla vega það mál sem við erum að tala um hér, að þær framkvæmdir sem eru valdar til að vera samvinnuverkefni eru ekki valdar vegna ábatans sem þær geta þýtt fyrir land og þjóð, með tilliti til þeirrar auknu skattheimtu og þess aukna kostnaðar sem slík verkefni geta haft í för með sér. Í kringum framkvæmdirnar mun verða aukinn kostnaður fyrir fólk á þessum landsvæðum frekar en annars staðar. Það er ekki sanngjarnt nema einmitt að þessar framkvæmdir sem um ræðir séu almennt það aftarlega í forgangsröðinni að samfélagslegur ábati verði meiri en aukni kostnaðurinn sem verður af biðinni og þeirri fjármögnun sem þarf fyrir einkaframkvæmd og arðsemi af henni. Eins nauðsynlegar og þessar vegaframkvæmdir eru, eru þær einmitt teknar inn í þetta ákvarðanaferli ágiskunar en ekki í ferli þar sem horft er til ábata og kostnaðarmats og hugað að þeim sanngirnisrökum sem við þyrftum að hafa til hliðsjónar þegar við búum til heildarforgangsröðunarlista um samgönguframkvæmdir til að ná markmiði okkar, glansmyndinni.