150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[10:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Með þessu máli er verið að taka framkvæmdir út úr samgönguáætlun, sem er rammi um það hvernig forgangsraða skal faglega samgönguframkvæmdum í landinu með tilliti til öryggis og annarra sjónarmiða. Sex framkvæmdir eru teknar út og einkaaðilum heimilað að fjármagna þær, það er réttlætingin með þessu. Þetta er nokkuð sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur að sjálfsögðu viljað gera mjög lengi, að fara í einkaframkvæmdir og taka gjald af þeim sem nota vegina. Þetta fá þeir fram hér vegna þess að hæstv. samgönguráðherra virðist ekki vera nógu sterkur til að geta tryggt það fjármagn sem þarf til að byggja upp vegakerfið, jafnvel þó að það sé í stjórnarsáttmálanum að forgangsraða eigi fjármunum í innviðauppbyggingu í vegaframkvæmdir.

Sumar framkvæmdirnar hefðu samt verið á samgönguáætlun, þær hefðu náð þar inn, en um leið og þessar framkvæmdir eru teknar af samgönguáætlun þegar hún verður samþykkt í dag er búið að læsa þær úti í þrjú ár. Það verður að fara þessa leið. Fólk verður þar af leiðandi að borga fyrir vegina. Sagt er að hægt sé að fara einhverjar hliðarleiðir og hjáleiðir. (Forseti hringir.) En hvar lenda þessar framkvæmdir í forgangsröðuninni í uppbyggingu, í samgönguáætlun í framtíðinni? (Forseti hringir.) Mjög aftarlega af því að hin leiðin er til staðar. Þær munu drabbast niður. Fólk mun þurfa að borga meira. FÍB segir 33% meira.