150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

436. mál
[11:38]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég styð frumvarp þetta en var með fyrirvara á nefndaráliti. Ég tel brýnt að heildarendurskoðun laganna fari fram svo fljótt sem verða má, eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom inn á. Ég tel að efla eigi nærþjónustu á þeim sviðum sem lögin ná til eftir því sem best við á. Markmið stjórnvalda með lagabreytingunni var að einfalda lögin í þágu fyrirtækja og almennings, eins og það var látið heita, með því að fella út tugi ákvæða sem eru starfsleyfisskyld og eftirlitsskyld hjá fyrirtækjum en hætta var á að það hefði jafnvel snúist upp í andhverfu sína. Fyrirvari minn sneri líka að einum þætti sem óvíst var hvort héldist inni en það var eftirlit með vinnubúðum og þar með aðbúnaði erlends verkafólks. Þar er pottur brotinn, svo ekki sé meira sagt, og þar höfum við sennilega upplifað mjög sorgleg dæmi nýverið. Þessi ákvæði haldast inni og hér þarf að bæta í og herða eftirlit.