150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun og ríkisábyrgðir .

944. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alltaf mjög gott þegar hv. þingmenn svara sjálfum sér í eigin andsvari. Mér heyrist að hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Jón Þór Ólafsson, hafi gert það með góðu móti núna, að svara andsvarinu. Ég get bara sagt að ég tek algjörlega undir andsvar hans. Skilningur minn á málinu er með sama hætti og hann lýsti hér. Mér finnst þessi nýja útfærsla sem við ræðum í atvinnuveganefnd í dag, og ég mun mæla fyrir hér í framhaldinu, tryggja enn betur að málið standist stjórnarskrá og EES-rétt og annað sem við létum líka skoða í þessu frumvarpi og hefur verið skoðað út frá þeirri forsendu í þeim breytingartillögum sem eru boðaðar. Ég tel að málið hafi batnað enn frekar og verið einfaldað eins og hægt er og að neytendur þurfi ekki að fara einhverja fjallabaksleið heldur eigi bara sinn rétt gagnvart viðkomandi ferðaskrifstofu. Ef það gengur ekki eftir er ferðaskrifstofan auðvitað komin á einhvern vondan stað og þarf að ganga að tryggingum sínum ef svo ber undir. En ég ber miklar væntingar til þess að þetta gangi hratt og vel fyrir sig eins og nýja útfærslan hljóðar.