150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[15:08]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég hef farið í nokkrar ræður um þetta mál og ætla einungis að impra á örfáum atriðum í þessari ræðu. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að framhaldsnefndarálitið er til mikilla bóta að okkar mati. Þar tókst að setja upp ákveðnar girðingar og ramma málið örlítið betur inn þannig að örlítið betur megi við una. Okkur tókst einnig að beina sjónum almennings að málinu, þ.e. borgarlínunni. Þar er að okkar mati verið að fara út í mjög óljósar framkvæmdir og mjög viðamiklar. Allt bendir einnig til þess að þær verði mjög kostnaðarsamar og til þess gerðar að spóla svoleiðis fram úr áætlunum. Það var því full þörf á að opna augu fólks fyrir því hvað væri hér á ferðinni.

Mergurinn málsins er sá að ríkið er í þessu dæmi að leggja fasteignir inn í félag, Keldnalandið, eitt verðmætasta byggingarland á Reykjavíkursvæðinu. Það eru áform um að leggja þær inn í þetta félag og einnig hugsanlega, eftir því hvernig gengur og með einhverjum fyrirvörum, arð af sölu Íslandsbanka. Þetta er alvarlegt, frú forseti. Það er alvarlegt vegna þess að málið varð þannig til að það hefur verið framkvæmdastopp á Reykjavíkursvæðinu í áratugi. Stofnbrautir hafa ekki verið byggðar upp. Sundabraut hefur verið í salti í áratugi. Þrátt fyrir að búið sé að tala um hana í yfir 40 ár örlar hvorki á framkvæmdum né hugmyndum um hvar hún eigi að vera vegna þess að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík hefur með framferði sínu ítrekað skipulagt inni á framkvæmdasvæði Sundabrautar. Og þetta er alvarlegt. Með þessu og stoppinu varðandi uppbyggingu stofnbrauta allt í kringum höfuðborgarsvæðið hefur borgarstjórnarmeirihlutinn haldið Sundabraut og nágrannasveitarfélögum í nokkurs konar herkví. Árangurinn af því er sá að þegar þeir bjóða upp á samning sem kallaður er samgöngusáttmáli höfuðborgarinnar fylgir honum að ríkið og nágrannasveitarfélögin eiga að láta verulegar fjárhæðir inn í borgarlínu og til vara og mestmegnis eiga vegfarendur og notendur að greiða þetta.

Þetta hef ég leyft mér, frú forseti, að kalla lausnagjaldið vegna þess að nágrannasveitarfélögin og ríkið hafa fallist á þetta til að losna úr þeirri herkví sem þau hafa verið í árum saman og áratugum saman. Þetta er lausnargjaldið sem við erum að borga, ríkið, nágrannasveitarfélögin og vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu. Það er umhugsunarvert, frú forseti. Það er umhugsunarvert og áhyggjuvert. Það er hlutur sem er vert að hafa áhyggjur af í framtíðinni með tilliti til margra framkvæmda sem hafa farið verulega fram úr áætlun á umliðnum árum. Þarna er verið að eyða tugum milljarða og það hafa heyrst tölur yfir 100 milljarða. Nú þegar ástandið hér á landi fer versnandi vegna veirufaraldursins dettur mönnum þetta í hug. Miðflokkurinn stendur á móti þessu. Miðflokkurinn segir nei. Við segjum nei við borgarlínu.