150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

ríkisábyrgð á láni til Icelandair.

[13:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra segir að henni finnist mikilvægt að slíkar deilur leysist við samningaborðið. En ég spyr hæstv. ráðherra: Er sama hvernig það er gert? Skiptir engu máli hvernig samningum var náð, hvaða aðferðum var beitt? Ég heyrði ráðherrann segja rétt í þessu að afstaða ríkisstjórnarinnar birtist í verkum hennar og verk ríkisstjórnarinnar birtast mér þannig að Icelandair hafi tekist að spara sér fé með bolabrögðum og árás á grunnstoðir vinnuréttar á Íslandi. Fyrirtækið er verðlaunað með ríkisábyrgð. Þannig horfir þetta við mér. Eða hvernig túlkar hæstv. ráðherra það að reka allar flugfreyjur og hóta því að semja við eitthvert ótilgreint stéttarfélag í staðinn og láta flugmenn jafnvel ganga í þeirra störf til að ná árangri í stéttabaráttu? Finnst henni það ásættanlegt? Finnst henni það vera ásættanleg aðferðafræði við samningaborðið? Er það eitthvað sem á að verðlauna með ríkisstuðningi?