151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

þingsköp Alþingis.

8. mál
[11:21]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Frumvarpið flyt ég fyrir hönd forsætisnefndar Alþingis en nefndin stendur öll að frumvarpinu ásamt áheyrnarfulltrúum Viðreisnar og Flokks fólksins.

Tilefni er þingheimi vel kunnugt. Reynslan af störfum fastanefnda Alþingis í Covid-19 faraldrinum hefur sýnt að festa þarf í sessi í þingsköpum heimild fyrir alþingismenn til að taka þátt í nefndarfundum með notkun fjarfundabúnaðar. Ákvæði þingskapa gera ráð fyrir að alþingismönnum sé skylt að mæta á nefndarfundi en um það gilda sömu reglur og um fundarsókn þingmanna. Hefur ákvæðið í 1. mgr. 17. gr. þingskapa verið skilið svo að nefndarmaður teljist mættur á nefndarfund sé hann á staðnum. Þannig telst nefndarfundur aðeins ályktunarbær ef meiri hluti nefndarmanna er staddur á fundinum, samanber 22. gr. þingskapa. Þó svo að bæði símafundir og notkun fjarfundabúnaðar hafi tíðkast í ákveðnum mæli í nefndarstörfum undanfarin ár hefur það verið svo að nefndarmaður hefur ekki getað tekið þátt í atkvæðagreiðslu um mál, átt tillögurétt eða komið að öðrum ákvörðunum þingnefndar nema vera á staðnum, að óbreyttum þingsköpum.

Á síðasta löggjafarþingi voru samþykkt tímabundin afbrigði frá þingsköpum eins og heimilt er samkvæmt 95. gr. til að víkja frá 1. mgr. 17. gr. þingskapa um mætingarskyldu þingmanna á fundum fastanefnda og 22. gr. um ályktunarbærni nefndarfunda. Í kjölfarið voru settar leiðbeiningar um framkvæmd afbrigðanna og notkun fjarfundabúnaðar. Var þetta gert til að skapa alþingismönnum skilyrði til að sinna nefndarstörfunum þrátt fyrir samkomubann og takmarkanir voru fjarlægðar vegna kórónuveirufaraldursins. Voru slík afbrigði fyrst samþykkt á þingfundi 12. mars síðastliðinn en þau voru síðan framlengd og þeim breytt eftir því sem faraldrinum vatt fram. Ég hygg að almennt séð hafi verið ánægja með hvernig til tókst, bæði meðal þingmanna og gesta, og augljóst mál að fjarfundatæknin létti okkur mjög róðurinn að komast í gegnum síðastliðinn vetur og síðastliðið vor.

Forseti. Markmið frumvarpsins er að heimila þingmönnum að taka þátt í ályktunarbærum nefndarfundi með notkun fjarfundabúnaðar þegar sérstaklega stendur á. Þannig er lagt til að meginreglan verði áfram sú að nefndarmenn séu staddir á fundarstað en komi upp ófyrirséðar aðstæður er þingmönnum heimil þátttaka í fundi með notkun fjarfundabúnaðar. Tekur heimildin t.d. til heilsufars- og sóttvarnaaðstæðna eins og þeirra sem við búum við núna. Veikindi barna eða annarra aðstandenda geta sömuleiðis verið andlag þess að menn noti fjarfundabúnað, röskun á samgöngum vegna veðurs eða niðurfellingar ferða þannig að þingmenn verði sannanlega tepptir í sínum kjördæmum, fjarri fundarstað, eða þegar nefndarfundir eru haldnir utan starfsáætlunar þingsins. Felur frumvarpið í sér breytingu á 17. og 22. gr. þingskapa vegna þessa.

Áfram er gert ráð fyrir að settar verði nánari og kannski fastmótaðri reglur um útfærslu á notkun fjarfundabúnaðarins. Þar verður að sjálfsögðu litið til og byggt fyrst í stað á þeim leiðbeiningum sem þegar hafa verið gefnar út um sama efni. Það er rétt að árétta að hér er ekki um að ræða almenna og opna heimild til handa þingmönnum til að taka þátt í nefndafundum með fjarfundabúnaði sem vissulega einhverjir kynnu að vilja sjá en aðrir gjalda varhuga við því að gengið sé of langt í þessum efnum, a.m.k. fyrst í stað á meðan menn fóti sig betur í þessum nýja veruleika. Hér er farin sú leið sem ég tel að ætti að geta verið öllum ásættanleg. Nokkuð nákvæmlega skilgreindar aðstæður skapa möguleikann til að vera í fjarfundi á nefndarfundi eða halda fjarfundi nefnda. Síðan er byggt á nánari leiðbeiningum um hvernig það fari allt sem best fram.

Ég held við höfum öll lært mikið af því að ganga í gegnum síðastliðinn vetur, síðastliðið vor og eftir atvikum síðastliðið sumar. Við erum enn í þeirri stöðu að þurfa að búa við það sama og augljóst mál að þetta getur skipt verulegu máli, jafnvel sköpum, hvað varðar það að þingnefndir haldist starfhæfar þrátt fyrir að smit kynnu að koma upp eða einhverjir að vera tepptir frá þingstaðnum vegna sóttkvíar eða jafnvel einangrunar.

Niðurstaðan er sú að leggja til þessa breytingu á lögum um þingsköp og æskilegt væri að málið fengi hér skjóta afgreiðslu þannig að við þurfum ekki að byggja áfram á afbrigðum eða framlengdum afbrigðum frá þingsköpum.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.