151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun. Ég mun ekki nota tíma minn til þess að fara sérstaklega yfir málaflokka forsætisráðuneytisins en mun að sjálfsögðu taka við spurningum um þá málaflokka á eftir í umræðum. Það hefur verið áhugavert að hlusta á þessa umræðu. Breyttur veruleiki og ný heimsmynd eru orðin sem heyrast í ræðustól Alþingis. Og þá, einmitt vegna þeirra aðstæðna sem við stöndum frammi fyrir, skiptir ekki minnstu máli hvernig við högum ríkisfjármálum til næstu ára og hugum líka að samhengi þeirra við peningastefnu, þróun á vinnumarkaði og aðra stóra þætti sem geta haft áhrif á það hvernig samfélag okkar þróast.

Meginmarkmið fjárlaganna, sem er hið sama og birtist í fjármálaáætluninni, er að nota ríkissjóð og beita afli hans til að verja grunnstoðir samfélagsins, velferðina, menntunina, heilbrigðiskerfið, styðja við afkomu fólks með því að styðja við almenning og atvinnulíf í landinu en auka líka fjölbreytni og verðmætasköpun með því að styðja við nýsköpun og grunnrannsóknir og skjóta þannig fleiri stoðum undir efnahagslífið til framtíðar. Til að ná þessum markmiðum er ríkissjóði leyft að safna miklum skuldum því að rétta leiðin út úr þessari djúpu kreppu, þeirri dýpstu sem líklega hefur skollið á okkur í hartnær 100 ár, er ekki að halda að okkur höndum eða draga úr almannaþjónustu. Með þeirri nálgun myndum við auka á vandann. Til að geta brugðist við með þessum hætti verður tölulegum fjármálareglum laga um opinber fjármál vikið til hliðar allt áætlunartímabilið.

Mig langar að draga nokkra þætti fram á þessum stutta tíma. Í fyrsta lagi er þetta fyrsta fjármálaáætlunin þar sem við stígum fyrsta skrefið í að nýta hugmyndafræði velsældarhagkerfa. Ríkisstjórnin ákvað að leggja sex velsældaráherslur til grundvallar við gerð fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps og þær eru leiðarstef í vinnu á öllum málefnasviðum. Það er farið yfir þær í sérstakri rammagrein og þær eru:

Andlegt heilbrigði. Ég get nefnt nokkur dæmi um það hvernig sú áhersla birtist, til að mynda í geðheilbrigðisverkefninu Heilsuefling í heimabyggð, tómstundastyrkjum fyrir börn á lágtekjuheimilum o.s.frv.

Öryggi í húsnæðismálum. Þar erum við auðvitað að tala um ýmsa þætti, svo sem hlutdeildarlán, jöfnun á dreifikostnaði rafmagns og stuðning við almenna íbúðakerfið.

Virkni í námi og starfi. Þar horfum við sérstaklega til menntunartækifæra fyrir atvinnuleitendur.

Kolefnishlutlaus framtíð. Ég get nefnt hringrásarhagkerfið, kolefnisjöfnun landbúnaðar, aukin framlög til garðyrkjusamnings, undanþágur vegna vistvænna farartækja o.s.frv.

Gróska í nýsköpun. Það er kannski stærsti einstaki þátturinn sem vex mest í rammasettum útgjöldum. Það eru framlög til grunnrannsókna og nýsköpunar og líka nýjar aðferðir við að styðja við nýsköpun.

Betri samskipti við almenning. Þá hlýt ég sérstaklega að nefna öll þau verkefni sem við getum tíundað undir Stafrænu Íslandi.

Þetta eru allt önnur viðbrögð en í síðustu kreppu og um það var aðeins rætt hér í gær. En auðvitað er þessi kreppa annars konar. Hún er annars konar vegna þess að við eigum í henni með heimsbyggðinni allri. Við erum öll í sömu stöðu að eiga við efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs kórónuveiru. Við höfum líka dregið ákveðna lærdóma af því sem við gerðum síðast, ekki síst að of mikið aðhald og of mikill niðurskurður getur beinlínis dýpkað kreppu. Ef við lítum bara til alþjóðlegra ráðlegginga þá kemur til að mynda í ljós að aðhald í opinberum fjármálum eftir kreppuna 2008 hafði beinlínis neikvæð áhrif á hagvöxt fremur en jákvæð. Þess vegna erum við að beita opinberum fjárfestingum af krafti. Á næsta ári er gert ráð fyrir að opinber fjárfesting nemi 111 milljörðum, sem er 36% aukning frá fjárlögum yfirstandandi árs, meira en 100% aukning frá því að ríkisstjórnin tók við þegar 53 milljörðum var varið í opinbera fjárfestingu. Hún var þá auðvitað í algjöru sögulegu lágmarki þrátt fyrir gríðarlega uppsafnaða þörf á sviði opinberra fjárfestinga.

Sömuleiðis drögum við ekki úr þeim gjöldum sem renna til ýmissa málefna, útgjaldavöxturinn sem þegar hafði verið boðaður í síðustu fjármálaáætlun heldur sér, sem þýðir að í fjárlagafrumvarpi næsta árs er um 7,1% aukningu í rammasettum útgjöldum að ræða í mikilvæg samfélagsleg verkefni. Það eitt og sér, eins og ég kom að í óundirbúnum fyrirspurnum í gær, er pólitísk ákvörðun, að ákveða að viðhalda og verja þann vöxt sem hefur verið í almannaþjónustunni, enda tel ég að yfirstandandi heimsfaraldur hafi svo sannarlega sýnt mikilvægi þessara samfélagslegu kerfa sem við eigum og hversu miklu skiptir að við séum í raun búin að vera að efla þessi kerfi. (Forseti hringir.) Það hefur gert okkur mun betur í stakk búin til að takast á við þessa erfiðu tíma sem við eigum núna í, að vera með þessi góðu kerfi sem við eigum í samfélaginu okkar.