151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson ræðir hér um þessi viðbrögð, þ.e. að standa vörð um kerfin okkar sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni. Ég fór yfir það í henni en ætla að gera það aðeins ítarlegar núna. Þegar við skoðum þau viðbrögð sem við beittum hér eftir hrunið 2008 þá var ráðist í gríðarlegan niðurskurð hjá hinu opinbera sem hv. þingmaður nefnir. Staða okkar þá var auðvitað allt önnur en nú þar sem þá vorum við eiginlega fyrsta ríkið sem tókst á við bankakreppuna sem þá reið yfir og hún skall í raun og veru töluvert harðar á og varð miklu dýpri á Íslandi en víðast hvar annars staðar þannig að eins og hv. þingmaður man vel þá voru valkostirnir ekki margir á þeim tíma og aðgangur að lánsfjármagni takmarkaður.

Hv. þingmaður kallar það sem við stöndum frammi fyrir núna kosningaáætlun. Ég spyr hv. þingmann: Heldur hann að kosningar séu í öllum Evrópuríkjum um þessar mundir? Ef hann skoðar viðbrögð ríkja Evrópu og vestan hafs við þessum faraldri þá eru viðbrögðin flest á einn veg. Menn hafa dregið ákveðna lærdóma og sjá að það eru röng viðbrögð á þessum tímapunkti að fara í ónauðsynlegan niðurskurð á mikilvægum kerfum, heilbrigðiskerfi, menntakerfi og öðru. Það mun dýpka kreppuna þannig að viðbrögðin hafa einmitt verið að beita ríkisfjármálunum til þess að draga úr neikvæðum áhrifum kreppunnar. Þetta eru ríkisstjórnir ekki að gera af því að kosningar eru fram undan. Þetta eru ríkisstjórnir að gera því að það eru skynsamleg efnahagsleg viðbrögð. Og af hverju erum við að gera þetta svona? Vegna þess að við treystum því að íslenskt hagkerfi sé það sterkt að við getum vaxið út úr þessari kreppu. Ég trúi ekki öðru en að ég og hv. þingmaður séum sammála um að íslenskt hagkerfi standi á sterkum stoðum. Í stað þess að fara í einhverjar fálmkenndar aðgerðir hér í miðjum heimsfaraldri þá segjum við: Við ætlum að verja velferðina, menntakerfið og heilbrigðiskerfið og ætlum að vaxa út úr þessari kreppu og treysta á að íslenskt hagkerfi (Forseti hringir.) standi svo sterkum fótum að við munum geta það.