151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í umræðunni áðan barst í tal 69. gr. almannatryggingalaga og hæstv. fjármálaráðherra spurði hvað eftir annað: Hver á að borga? Við vorum t.d. að ræða um launaþróun. Það á að hækka almannatryggingar samkvæmt launaþróun. En með einhverjum ótrúlegum brellum hefur það ekki verið gert. Það er bara 3,6% hækkun um næstu áramót þó að launaþróunin ætti að vera rétt um 7%. Í þessari fjármálaáætlun er samt launaþróunin sögð vera um 5,2%. Þetta eru ótrúlegustu brellur til að koma í veg fyrir að almannatryggingaþegar fylgi launaþróun. Kjaragliðnun verður alltaf meiri og meiri.

En hver á að borga? Ég held það væri mjög sniðugt núna tímabundið að við sköttum inngreiðslur í lífeyrissjóði. Hvað myndum við fá við að gera það? Sennilega nálægt 100 milljörðum. Hvað væri hægt að gera við þessa peninga? Það væri hægt að bæta stórlega hag öryrkja, eldri borgara, atvinnulausra, heilbrigðiskerfisins. Þessa peninga væri hægt að nýta gífurlega vel þó ekki væri nema bara tímabundið í því ófremdarástandi sem er í dag.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig líst honum á þessa hugmynd, að við bara skellum okkur í það? Ég held að enginn myndi vera á móti því vegna þess að þetta er eiginlega frábær hugmynd, sérstaklega í ljósi þess að við gætum eyrnamerkt féð velferðarmálum. Á sama tíma gætum við séð til þess að sennilega þyrfti enginn að vera í biðröð eftir mat.