151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:02]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur uppi stór orð en það er ekki mikið innihald í þeim. Ef hv. þingmaður les það sem hér er um að ræða getur hann ekki með nokkru einasta móti haldið því fram að ekki sé um markmið og áætlanir að ræða. Ég nefndi Covid-skýrsluna, tólf ákveðnar tillögur. Það voru 400 manns úti um allt þjóðfélag, í atvinnulífinu, sem komu að stefnumótun Íslandsstofu um útflutningsstefnu okkar. Er hv. þingmaður að segja að þetta fólk, sem vann saman að því að koma með metnaðarfulla áætlun um það hvernig við getum aukið útflutningsverðmæti okkar, sé bara með útúrsnúninga og að sú vinna sé metnaðarlaus? Það er það sem hv. þingmaður er að segja. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður heldur kannski að hann sé að slá pólitískar keilur í einhverjum hráskinnaleik en hann er að gagnrýna það sem áhersla hefur verið lögð á, að fá aðila, ekki bara í ráðuneytinu heldur úti í öllu þjóðfélaginu, sem beina þátttakendur í stefnumótun í mikilvægum málaflokkum í utanríkisviðskiptum, af því að hv. þingmaður fjallaði sérstaklega um utanríkisviðskipti.

Við getum talað um GRÓ-skólana. Við getum talað um áherslur í þróunarsamvinnu, t.d. á mannréttindamiðaða þróunarstefnu sem hv. þingmaður stjórnarandstöðunnar kom m.a. að. Er hv. þingmaður að gera lítið úr þeirri vinnu og þeim markmiðum? (SMc: Nei.) Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ég hlustaði á hv. þingmann, það hlustuðu allir á hv. þingmann, og ef hann er ekki að gera lítið úr öllu því sem allir þessir aðilar komu að, verður hann að segja það. (Forseti hringir.) Hann talaði mjög niður til þessarar vinnu og gerði afskaplega lítið úr henni og það þykir (Forseti hringir.) mér miður því að ég var að vonast til þess að breið og góð pólitísk sátt og samstaða væri um þessa hluti.