151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég ítreka spurningu mína: Er hæstv. ráðherra sammála gagnrýni Miðflokksins á EES-samninginn? Mér þótti ráðherrann tala í lokin eins og United-maður talar um Liverpool, en það er önnur saga. Ég vil bara fá það á hreint hvort hæstv. ráðherra sé sammála þeirri gagnrýni sem m.a. Miðflokkurinn hefur sett fram á EES-samninginn.

Í öðru lagi langar mig, og þá kem ég allt öðru efni, að fá að vita hvernig gengur að fá Breta til að viðurkenna Ísland sem strandveiðiþjóð í makríl. Mér finnst það skipta mjög miklu máli að við fáum upplýsingar um það, því að ekki síst á þessum tímum, eins og hæstv. ráðherra lýsir vel, þurfum við að tryggja hagsmuni okkar Íslendinga, viðskiptalega hagsmuni sem og efnahagslega og félagslega hagsmuni. Og þá skiptir utanríkisþjónustan máli. Hvernig gengur að fá Breta til að viðurkenna Ísland sem strandveiðiþjóð í makríl? Það hefði mikla þýðingu fyrir okkur Íslendinga, sérstaklega í ljósi þess að Bretar taka við samningsumboði frá Evrópusambandinu nú um áramótin og virðist vera þokkalegt talsamband milli utanríkisráðherra og Breta. Hversu oft hefur hæstv. ráðherra rætt um makríl og stöðu Íslands sem strandveiðiþjóðar við breska ráðherrann? Ég geri ráð fyrir að ráðherra hafi haldið því sjónarmiði og þeim hagsmunum Íslendinga mjög á lofti í samtölum sínum við Breta, þannig að það væri gott að fá það upplýst.

Í þriðja lagi: Er staða Íslands sterkari með því að semja við Breta en ESB að mati ráðherra?