151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Þó að málaflokkur hæstv. ráðherra nemi ekki nema 2% af fjárlögum, eða þar um bil, er stundum talað eins og hann sé botnlaus peningahít og einhvern veginn sé auðveldast í heimi að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum með því að höggva í utanríkisþjónustuna. Ég held að á síðustu misserum höfum við séð nokkuð góð dæmi um mikilvægi þjónustunnar og þeirrar starfsemi sem þar hefur verið til staðar. Hæstv. ráðherra nefndi borgaraþjónustuna, skrifstofu sem ég efast um að nokkurt mannsbarn hafi vitað af fyrir ári en reyndist vera lífsbjörg margra þegar á þurfti að halda. Þetta sýnir okkur svo vel hvað þessi litla kvika utanríkisþjónusta okkar, með því hæfa starfsfólki sem þar vinnur, getur þegar á reynir.

Mig langar að biðja ráðherrann, sumpart vegna þess að hann býr að reynslu sem fyrrverandi fulltrúi í fjárlaganefnd, aðeins að hjálpa mér að skilja aðhaldskröfukonseptið. Það er gerð 2% aðhaldskrafa á þessa málaflokka eins og almennt er í áætluninni. En hvernig virkar það t.d. í málaflokki 4 um utanríkismál þar sem um helmingur af útgjöldunum er bundinn í fjölþjóðasamstarf? Þýðir það þá að 2% aðhaldskrafa leggst þyngra á einhverja tiltekna kjarnaþætti í utanríkisþjónustunni eins og borgaraþjónustuna? Hvernig er það t.d. í þróunarsamvinnunni, sem er væntanlega mestan part einhver millifærsla fjármuna á milli Íslands og alþjóðasamtaka, (Forseti hringir.) er aðhaldskröfunni smurt yfir hækkunina? Og þá vaknar spurningin: Til hvers er hún þá ef hún leiðir ekki til þeirra úrbóta í (Forseti hringir.) rekstri ráðuneytanna sem maður myndi ætla að væri tilgangur hennar?