151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:34]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að þetta eru innan við 2% af heildarútgjöldum, mig minnir 1,7–1,8%. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara aðeins yfir borgaraþjónustuna. Ég held að það sé rétt hjá honum að fólk hafi ekki vitað hvað hún er. Hins vegar hafa margir nýtt sér þjónustu hennar. Eðlilega er fólk kannski ekki að bera það á torg þegar það, eða einhver nákominn, lendir í einhverjum vandræðum.

Það er gott að vekja athygli á því að rúmlega 200 manns vinna frítt fyrir íslenska þjóð. Ég hef lagt áherslu á að styrkja tengslin við þetta fólk og bjóða því hingað heim til að kynna hvað er í gangi og líka til að sýna því örlítinn þakklætisvott. Þetta fólk, kjörræðismennirnir úti um allan heim, var ómetanlegt fyrir okkur við þessar aðstæður. Síðan komum við á laggirnar nýrri deild sem heitir heimasendiherrar. Hún nýtir þá aðila sem eru heima og eru þá sendiherrar gagnvart ákveðnum ríkjum þó að þeir séu staðsettir á Rauðarárstígnum. Það nýttist mjög vel.

Hv. þingmaður kom inn á hluti sem mjög gott er að ræða. Menn eru alltaf að reyna að setja ramma utan um þann stóra rekstur sem ríkið er, ekki bara Íslendinga heldur aðrir líka. Við stigum mjög heillavænlegt skref í sambandi við opinber fjármál, fjármálalögin og annað slíkt. Síðan reyna menn að hafa einhverja hreyfingu á hlutunum og eru alltaf að leita leiða til að gera hlutina með hagkvæmari hætti. Það á kannski ekki beinlínis við þá þætti sem hv. þingmaður vísaði til sérstaklega, eins og þegar við semjum um ákveðin framlög í þróunarsamvinnu. Við semjum t.d. um framlög í uppbyggingarsjóði EFTA og annað slíkt og engin aðhaldskrafa kemur á það. (Forseti hringir.) En þetta gerir þá kröfu til stjórnenda ráðuneyta að reyna að líta til þess að gera hluti með jafn hagkvæmum hætti og mögulegt er. Hvort þetta er besta leiðin eða önnur leið (Forseti hringir.) betri til, það má síðan ræða.