151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Einhvern veginn var ég að vona að hæstv. ráðherra væri ekki svo þungur af kaldastríðsklyfjunum að hann gæti tekið sig aðeins á loft með mér og hafið sig yfir þessa, að mér finnst, úreltu og gamaldags hugsun. En allt í góðu með það. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, sérstaklega í ljósi þess sem hann kom inn á, sem er hlutverk hans sem varaformaður þjóðaröryggisráðs, hvort hann geti ekki tekið höndum saman með mér og lýst því yfir að hann sé tilbúinn til að fara í endurskoðun á þeirri stefnu, þó ekki nema að því leyti að hlutföllin þar væru aðeins öðruvísi en þau eru í dag.

Ef þjóðaröryggisstefna Íslands er skoðuð þá er þar hvert ákvæðið á fætur öðru þar sem talað er um Atlantshafsbandalagið, varnarsamning frá 1951 og norræna samvinnu og talað um öryggis- og varnarmál, varnarmannvirki, búnað og ég veit ekki hvað og hvað. Manni líður stundum eins og maður sé að lesa sagnfræðirit, Virkið í norðri eða hvað það er, en ekki endilega lýsingu á stöðu Íslands í nútímanum þar sem ég held að aðaláherslan eigi að vera á hina borgaralegu samvinnu um allan heim, á netöryggismál, að ekki sé talað um heilbrigðismál, Sameinuðu þjóðirnar o.s.frv.

Ég veit að allt þetta er að finna í utanríkisstefnu hæstv. ráðherra, hann hefur talað fyrir öllu sem ég er að nefna. Ég er bara að athuga hvort ég geti ekki togað hæstv. ráðherra aðeins upp með mér, þó ekki væri nema í áherslubreytingu á þjóðaröryggisstefnu. Hún er óttalega stríðsóttaleg, leyfi ég mér að segja. Hún er óttalega föst í — og hér tala ég sem sagnfræðingur — deilum og (Forseti hringir.) hugmyndum sem allt snerist um í pólitík einu sinni, þ.e. stríðstólum.