151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Hvernig getum við látið sjávarútveginn, sem hefur verið undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar í gegnum tíðina, auka við gjaldeyristekjur okkar á þessum tímum þegar tekjufall í ferðaþjónustu er nærri 100%? Um 6% skerðing er á aflaheimildum nú frá síðasta fiskveiðiári. Ef sú skerðing yrði tekin til baka myndi það þýða auknar gjaldeyristekjur. Þrátt fyrir það ástand sem nú er vegna veirunnar er fiskverð á uppboðsmörkuðum, a.m.k. í þorski, í sögulegu hámarki, sem segir manni að eftirspurn eftir þeim fiski er mikil.

Ég geri mér grein fyrir því hvernig fiskveiðistjórnarkerfið virkar, hvað varðar sjálfbærni og þar fram eftir götunum. Ég hef ávallt talað fyrir ábyrgri fiskveiðistjórn þar sem sjálfbærni fiskstofna er höfð að leiðarljósi. Ég veit líka að aflareglan, sem hefur verið um 20% síðustu ár, er ekki heilög tala en ekki hefur verið hreyft við henni í mörg ár. Hvers vegna ekki? Kemur til greina að sveitarfélög fái hluta af veiðigjöldum? Er vilji til þess hjá stjórnvöldum? Í mínum huga og margra annarra er það sanngirnisatriði að hluti þeirra veiðigjalda sem útgerðin borgar renni til þess sveitarfélags þar sem útgerðin er skráð. Þetta kemur á móti þeirri skerðingu sem boðuð er í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Strandveiðar hafa sannað gildi sitt og er sátt um þann útgerðarflokk af ýmsum ástæðum. Ef fiskveiðiheimildir á yfirstandandi fiskveiðiári yrðu auknar eru miklar líkur á því að þeir 48 dagar sem hverjum strandveiðibát er úthlutað nýtist þeirri útgerð, þ.e. að potturinn myndi duga. Ég gæti haldið áfram og talað lengi um hugmyndir til að auka verðmæti í sjávarútvegi en tími minn er útrunninn.