151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

19. mál
[17:50]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður spyr hvort starfsmenn hafi eitthvað farið gegn vilja ráðherra. Ja, hvar á ég að byrja og hvar á ég að enda? Ég vek athygli á því t.d. að þegar einhverjar breytingar verða í heilbrigðisstarfsemi, þá er ekki eins og heilbrigðisstarfsmenn hafi eitthvað verið feimnir við að gagnrýna það. Ef ég man rétt hafa starfsmenn líka skoðanir á fyrirætlunum nýsköpunarráðherra um Nýsköpunarmiðstöðina, svo eitthvert dæmi sé tekið. Það eru auðvitað fjölmörg önnur dæmi.

En það sem er hins vegar áhugavert í þessu, og við skulum bara hætta að sykurhúða það, við skulum bara tala um hlutina eins og þeir eru, er að hin sundraða stjórnarandstaða hefur gert allt það sem hún getur til að koma í veg fyrir að þetta mál nái fram að ganga. Það fyrirkomulag að ráðherra hafi fullt vald til að skipa hvern sem er til æviloka er nokkuð sem stjórnarandstaðan er búin að gera allt til að viðhalda. Fréttin í þessu er sú að hv. utanríkismálanefnd, að kröfu manna úr stjórnarandstöðunni, sendi línu á embættismenn og sendiherra og báðu þá um umsagnir. Það er fréttin. Ég held að mjög mikilvægt sé að allir séu meðvitaðir um þetta. Ég mun ekki liggja á því að segja þessa sögu.

Ef menn tala hins vegar efnislega um gagnrýnina þá er hún almennt frá þeim starfsmönnum eða þeim sem eru móti því að einhver utan utanríkisþjónustunnar geti verið sendiherra. Það er ekki komið til móts það. Hins vegar er bent á að hugsanlega væri hægt að hafa fleiri sendiherra eftir samþykkt frumvarpsins og það er komið til móts við það, hér er lögð til enn frekari fækkun þessara sendiherra sem auglýst var eftir.