151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

19. mál
[17:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég verð að segja að ég er afar undrandi yfir því að hæstv. ráðherra þessa mikilvæga málaflokks skuli koma hingað upp og segja að einhverjir þingmenn í stjórnarandstöðu hafi sent embættismönnum pósta og beðið þá um að senda inn umsagnir. Ég kannast ekki við það. Ég hef ekki talað við einn einasta embættismann í utanríkisráðuneytinu. Ég er einfaldlega bara að fara yfir þetta mál, skoða þær umsagnir sem bárust þegar það var fyrst lagt fram og þá koma þær frá starfsmönnum, því ágæta starfsfólki sem vinnur í því ráðuneyti. Mér finnst bara eðlilegt að spyrja hvort tillit hafi verið tekið til þeirra umsagna því að væntanlega þekkja þessir starfsmenn best þá starfsemi, búnir að vera þarna lengi og þess vegna sé ég ekkert athugavert við það. Og ég er mjög hissa á þessu svari, ef svar skyldi kalla, eða þessari athugasemd hæstv. ráðherra, hvað það varðar að stjórnarandstaðan sé að panta hér einhverjar umsagnir eða álit starfsmanna um þetta frumvarp.

Ég vildi að lokum nefna, af því að hæstv. ráðherra minntist á sendiherra í þessu tilfelli, að þegar maður skoðar þessar umsagnir, og það sem hefur verið sagt um þetta mál af þeim sem þekkja best til, sem eru þá starfsmenn ráðuneytisins, þá hefur það verið hrakið að hægt sé að fækka sendiherrum, að þetta fækki sérstaklega sendiherrum. Mig langar að fá það frá hæstv. ráðherra í lokin hvort hann stendur enn við það að það gangi eftir í ljósi þess að starfsmenn hafa bent á að svo sé ekki.