151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

19. mál
[17:57]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Sem nefndarmaður í utanríkismálanefnd ætla ég að leyfa mér að fara hér nokkrum orðum um frumvarpið eins og það er orðið núna. Þetta er auðvitað ákveðin endurskoðun á lögum um utanríkisþjónustu og verið að færa hana á vissan hátt til nútíma og auka sveigjanleika. Ég tel að vel hafi tekist að endurvinna frumvarpið að því marki sem þurfti. Þetta byggist jú á stefnumótunarvinnu hjá ráðuneytinu sem var unnin fyrir alllöngu síðan og birtist í skýrslu sem heitir Utanríkisþjónusta til framtíðar þannig að þarna er í raun verið að virkja að verulegu leyti skoðanir sem eru til innan ráðuneytisins og það er gott.

Það sem hefur tekið ákveðnum breytingum er þetta með að auglýsa sendiherraembætti, sem er skipað í á hefðbundinn embættismannahátt, og takmarka þá um leið þann fjölda við fjölda sendiskrifstofa sem er auðvitað ágætisviðmið því að það er jú sjálfsagt að einhvers konar takmarkanir séu á fjölda sendiherra. Það er jú um leið þannig að þegar svona embætti eru auglýst með tilteknum kröfum standa starfsmenn ágætlega, segja starfsmenn ráðuneytisins, vegna reynslu sinnar og menntunar og eru vel í sveit settir til að sækja um. Þá hefur verið tekið tillit til, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, ábendinga og tillagna í nefndaráliti okkar í utanríkismálanefnd, annars vegar hvað varðar ráðgefandi valnefnd sem er þá til hliðar við aðalábyrgðarmanninn, sem er ráðherra sjálfur, og er honum til ráðgjafar við að vinna úr þeim umsóknum sem berast. Það er í sjálfu sér ekki óþekkt kerfi innan ráðuneytisins nú þegar.

Svo eru auknar kröfur um menntun og sérþekkingu sem þeir sendiherrar sem auglýst er eftir til sérstakra verkefna þurfa að hafa. Það er ákveðin gagnsemi í því að geta gert það. Þetta eru allt að fimm sendiherrar. Sá misskilningur hefur verið í gangi að þeir væru þá örugglega allir skipaðir í einu þannig að þá fjölgi sendiherrum skyndilega um fimm. En það er auðvitað ekki þannig vegna þess að þetta eru ákveðin verkefni. Ég get nefnt það sem mér dettur í hug, þróunarsamvinnumál, loftslagsmálin jafnvel þegar fram í sækir, norðurslóðamál jafnvel, það er jú þekkt í mörgum öðrum löndum að þar eru sérstakir norðurslóðasendiherrar og ég get líka nefnt ákveðinn þátt öryggismála eins og t.d. netöryggismál sem bólgna nú mjög út. Í öllum þessum tilvikum gætu menn með sérþekkingu komið sér vel, með sendiherranafnbót og -verksvið. Auk þess er komið hér inn á sendifulltrúa sem eru næstir í röðinni fyrir neðan sitjandi sendiherra, að hægt sé að skipa þá sem skrifstofustjóra eða sendiherra tímabundið. Það er líka til þess að auka þann sveigjanleika sem ég minntist á. Allt þetta finnst mér vera til bóta.

Í lokin vil ég bara árétta að það er mjög mikilvægt að þessar breytingar séu gerðar í sem mestri sátt við starfsmenn í utanríkisþjónustunni. Ég ítreka það sem ég hef sagt margoft áður: Þessi þjónusta er okkur afar mikilvæg. Hún er oft gagnrýnd fyrir að vera of stór og of dýr í rekstri o.s.frv. en ég vil segja á móti að hún sé ekki ofmönnuð á neinn máta í heild og heldur ekki ofsett að fjármunum í heild, þvert á móti, og gildi slíkrar þjónustu, skilvirkrar og öflugrar, fyrir smáríki verður seint ofmetið. Þannig að ég lýsi því yfir að við tökum greiðlega á móti þessu frumvarpi á ný í hv. utanríkismálanefnd og vinnum það jafn faglega og fyrr.