151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[15:05]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er rétt. Það er mikilvægt að í þingstörfunum sé alltaf breið flóra þingmanna, að þeir sem koma fram fyrir hönd þjóðarinnar komi frá öllum stöðum, hafi reynslu sem víðast að. Það er einmitt eitt af því sem næst kannski frekar með jöfnun atkvæðavægis. Það er því mjög gott markmið. Að sama skapi held ég að það sé nauðsynlegt fyrir okkur innan stofnunarinnar að leggja metnað í að reyna að brjóta þetta upp. Samgöngumál skipta máli fyrir höfuðborgarsvæðið og þau hafa setið á hakanum mjög lengi vegna þess að það er alltaf ofuráhersla á að sinna samgöngum á landsbyggðinni. Á sama hátt eru atriði sem snúa að utanríkisviðskiptum sem skipta landsbyggðina jafnvel meira máli en höfuðborgina. Það þarf alltaf að finna þetta jafnvægi. Það eina sem ég er að reyna að benda á hér, þetta er ekki einu sinni andsvar heldur bara innlegg, er að við þurfum líka að breyta menningunni innan húss, ekki bara atkvæðavæginu. En byrjum endilega á atkvæðajafnvægi.