151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

græn utanríkisstefna.

33. mál
[17:35]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Hér er um að ræða, að ég tel, nokkuð hógværa tillögu, mikilvæga, einfalda og góða, sex atriði sem ná yfir margar hugmyndir sem hafa komið upp víða í samfélaginu undanfarin ár en hafa einhverra hluta vegna ekki komist til framkvæmda þrátt fyrir að vera nokkuð augljósar að mörgu leyti. Auðvitað er hægt að bæta ýmsu við en ég held að það megi bara byrja á því að segja að þetta séu einfaldar og hógværar tillögur, kannski að einhverju leyti róttækar eins og hv. þm. Logi Einarsson nefndi, en ég held samt að róttækni sé ekki endilega kjarninn í þessu. Kjarninn er að þetta er skynsamlegt. Við eigum að fara svona leiðir þannig að það að þetta sé einmitt nokkuð hógvært er ástæða út af fyrir sig til að samþykkja þetta bara hér og nú. Auðvitað mun það þó taka einhvern tíma í meðferð.

Ég nefni það vegna þess að mér finnst merkilegt að þessi tillaga eða önnur sambærileg hafi í rauninni ekki komið frá ríkisstjórninni og þegar maður lítur yfir flutningsmenn tillögunnar og einkum fyrsta flutningsmann, hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur, sér maður að þetta er mikið til hópur innan utanríkismálanefndar sem hefur reynt að lyfta utanríkismálum upp á svolítið hærri stall. Ég er ekki lengur í utanríkismálanefnd en ég sakna þess að vera í þeirri vinnu vegna þess að það er svo margt mikilvægt að gerast þar. Ég held að það sé vandamál við íslensk stjórnmál almennt að utanríkispólitík og utanríkismál eru oft álitin aukaatriði. Það er miklu vinsælla í íslenskum stjórnmálum að huga að einhverjum málum heima í sveit eða einhverjum innanríkismálum, einhverjum málum sem varða borgarana í daglega lífinu vegna þess að það er miklu auðveldara að útskýra slík mál. Það er miklu auðveldara að útskýra landbúnað og þar af leiðandi endurheimt votlendis t.d. í umhverfissamhengi eða samgöngur og mikilvægi þess að sinna orkuskiptum í samgöngum heldur en t.d. að útskýra mikilvægi þess að utanríkisviðskipti fari fram á grænum forsendum.

Það er flókið að útskýra líka hvernig land eins og Ísland, þar sem búa einungis 360.000 hræður, hafi einhvern veginn burði til þess að hafa jafn mikil áhrif á alþjóðavettvangi og lönd á borð við Kína, Indland, Rússland eða Bandaríkin. En það er góð hugmynd, sem hefur oft verið nefnd, að vinna heima en verka á heimsvísu, að nýta sér þekkingu sem er til staðar heima fyrir og passa að henni sé komið á framfæri við alla aðra. Í því samhengi er mikilvægt að muna að við höfum jafnmörg atkvæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Kína, jafnmörg atkvæði innan NATO og Bandaríkin, jafnmörg atkvæði innan EFTA og Sviss og jafnmörg í Norðurskautsráðinu og Rússland. Við höfum mikla rödd, miklu meiri rödd en stærð okkar gefur til kynna. Ef við notum ekki þá rödd eins mikið og við mögulega getum öllum stundum erum við að sóa tækifærum. Það er hárrétt sem hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir nefndi í ræðu sinni að Ísland vakti athygli með framgöngu sinni í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sem er, nota bene, hlutverk sem við gengum inn í eftir að mun stærra og voldugra ríki gekk út. Við fórum inn í það með lítinn tíma til stefnu og stóðum okkur vel og það var flott og við ættum að gera meira af slíku.

Mannkynið stendur frammi fyrir gríðarlegum væntum skaða, sem við höfum nú þegar byrjað að sjá í formi aukinna skógarelda og aukinnar tíðni fellibylja, að því marki að stafrófið kláraðist í byrjun september á þessu ári og við erum komin langt inn í gríska stafrófið á þessum tímapunkti, þ.e. hver fer fellibylur fær úthlutað staf til nafns. Það eru hlutir að gerast og ef við, þrátt fyrir að vera lítil þjóð á norðurhjara veraldar, nýtum ekki öll tækifærin til að reyna að hjálpa mannkyninu að fara í rétta átt erum við að gera mistök.

Við höfum nú þegar gert margt og ég vil sérstaklega nefna að innan EFTA, þar sem ég gegni formennsku Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA, hefur verið gerður nýr kafli um sjálfbæra þróun sem snýr að því að þegar við erum að semja við önnur ríki um fríverslunarsamninga héðan í frá munu samningamenn okkar innan EFTA leggja áherslu á ákveðin atriði sem snúa að sjálfbærri þróun, þar með talið náttúruvernd og umhverfisvernd, sem er bara mjög jákvætt. Að einhverju leyti uppfyllir það fjórða atriðið í þessari tillögu um stefnu um græna fríverslun og alþjóðaviðskipti. En það er þess virði að nefna að þrátt fyrir að við höfum gert þetta innan EFTA eru ekki allir fríverslunarsamningar Íslands gerðir innan EFTA. Við höfum tvö dæmi um tvíhliða samninga, við Kína og við Færeyjar og það er kannski ástæða til að nefna það, vegna þess að nú eru haldnir reglulegir fundir með ríkjum sem við eigum fríverslunarsamninga við, að hugsanlega væri ágætt að uppfæra fríverslunarsamninginn okkar við Kína með einhverjum grænum markmiðum. Það er bara eitt lítið dæmi um nákvæmlega hvernig mætti láta þessa tilteknu þingsályktunartillögu komast til framkvæmda.

Að lokum langar mig að nefna að í næstu viku geri ég ráð fyrir að sérstök umræða verði hér við umhverfisráðherra um loftslagsmál og árangurinn í þeim. Einn af áherslupunktum mínum sem málshefjanda þar verður áhersla á alþjóðavinkilinn vegna þess að ef við hefðum ákveðið að leggja mikinn metnað í þetta þá gætum við náð að uppfylla okkar hluta af Parísarsamkomulaginu innan nokkurra ára. Það væri raunhæft og það er til mikils að vinna að vera fyrsta landið sem uppfyllir sinn hluta þess sáttmála. Þau lönd geta svo farið í að hjálpa öðrum löndum að gera það og þar eru mörg viðskiptatækifæri, mörg tækifæri fyrir fyrirtæki að fara út í heim og standa sig vel. En það er alveg ljóst að ef ekki er víðtæk alþjóðasamvinna er hætt við því að markmiðið sjálft náist ekki, jafnvel þótt Ísland og fleiri lönd næðu að uppfylla sinn hluta, vegna þess að Ísland mengar ekki það mikið í stóra samhenginu en það gera mörg önnur lönd. Þau standa ekki öll sína plikt og þurfa jafnvel kannski okkar hjálp. Ein leið til að bjóða þeim þá hjálp væri að samþykkja þessa tillögu, að vinna út frá þessari tillögu í átt að miklu öflugri grænni utanríkisstefnu en líka bara í stóra samhenginu, að muna að alþjóðastjórnmál eru gríðarlega mikilvæg, bæði í umhverfislegu tilliti en líka í almennu tilliti vegna þess að við sem lítið land reiðum okkur á allan heiminn jafnmikið og allur heimurinn reiðir sig á okkur.