151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

orð þingmanns í störfum þingsins.

[11:14]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U):

Herra forseti. Ég vil þakka forseta fyrir að taka undir þær athugasemdir sem ég kom á framfæri. Ég tel að einnig hefði verið hægt að benda hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni einmitt á þá umræðu sem mun eiga sér stað seinna í þinginu um þetta mál þar sem hann getur komið á framfæri þeim málflutningi sem hann hefur verið að halda uppi.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, formanni velferðarnefndar, um að einnig eru sérstakar reglur um háttsemi þingmanna í nefndarstarfi er lúta að kurteisi fyrir framan gesti og kurteisi við aðra þingmenn nefndarinnar og það er kannski tilefni fyrir forseta til að taka það upp sömuleiðis við hv. þingmann.

En ég hlakka til umræðunnar hér um þetta mál, þingsályktunartillögu, um aðgengi erlendra borgara að þeirri heilbrigðisþjónustu sem þungunarrof er.(Forseti hringir.) Ef hv. þm. Ásmundur Friðriksson vill koma hingað og (Forseti hringir.) ræða sín sjónarmið þá gerir hann það undir þeim lið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)