151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[15:14]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við hljótum öll að fagna því að þetta mál sé komið fram enda mikilvægt jafnréttismál fyrir Ísland og Íslendinga alla að jafna dreifikostnað raforku og að allir íbúar landsins sitji við sama borð þegar kemur að tækifærum til búsetu og atvinnuuppbyggingar. Í raun er hálfhjákátlegt að þetta hafi ekki verið gert fyrir löngu og í raun algjörlega óþolandi að íbúar sitji ekki við sama borð. Hins vegar er mér enn fyrirmunað að skilja af hverju ríkisstjórnin velur að fara ekki alla leið og fulljafna muninn eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Það væri alveg hægt að klára málið strax á næsta ári eins og hæstv. ráðherra viðurkenndi að hún hefði viljað gera, þegar hún átti samtal um þetta verkefni í umræðu um fjármálaáætlun fyrr í haust, og vísaði hún þá í að hún myndi styðja það ef þingið ákvæði að fara þá leið. Vissulega eru plön um að fara upp í 95% jöfnun árið 2025 en það er langt inni í framtíðinni og eftir því sem ég best veit eru 95% ekki 100%, en hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef ég hef eitthvað misskilið það.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvaða áhrif þessi boðaða tæplega 10% hækkun Landsnets á gjaldskrá dreifiveitna hefur á þessi áform um jöfnun dreifikostnaðar. Þýðir hún að hlutfallið nær ekki 85% á næsta ári eða hvað erum við að tala um? Sömuleiðis vakti það athygli mína, herra forseti, að á Facebook-síðu Landsnets var vísað til þess að ekki hefði fengist niðurstaða hjá stjórnvöldum og því sjái fyrirtækið ekki annan kost en að hækka gjaldskrár um áramótin. Ætlar ríkisstjórnin að grípa inn í og tryggja að ekki þurfi að koma til gjaldskrárhækkana Landsnets sem hafa jú mikil áhrif um land allt, bæði á almenning og stórnotendur?