151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[15:18]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og fagna því að þetta sé í skoðun í ráðuneytinu. Við munum auðvitað ræða það betur síðar í nefndinni. En tvö önnur atriði vöktu spurningar eða valda mér áhyggjum í tengslum við þetta mál, sem við höfum reyndar rætt áður. Það er annars vegar hvort hæstv. ráðherra hafi engar áhyggjur af því að sú leið sem er valin hér hafi neikvæð áhrif á smærri stofnanir, þ.e. kaupendur að 5–10 MW, svo dæmi sé tekið, sem þurfa að kaupa raforkuna af dreifiveitunum. Þetta hlýtur að hafa verulega neikvæð áhrif á samkeppnishæfni þeirra og möguleika þeirra til vaxtar þegar jöfnunargjaldið er reiknað inn í. Ég spyr: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að laga þann vanda?

Herra forseti. Mig langar í því samhengi að spyrja hæstv. ráðherra aftur af hverju ekki var ákveðið að fara þá leið sem lögð var til í skýrslu starfshóps um raforkuflutning í dreifbýli, þ.e. að taka upp eina gjaldskrá fyrir landið allt eins og var gert á sínum tíma með Símann. Eins og ég skildi hæstv. ráðherra í fyrra samtali okkar var svarið að það væri of flókið og of mikil vinna. Vissulega er það ein leið, sem ráðherrann nefndi hér áðan, að fækka dreifiveitunum. Ég held, herra forseti, að við verðum að fara að skoða það alvarlega og leysa þetta mál í eitt skipti fyrir öll.

En mig langar sem sagt að biðja hæstv. ráðherra um að skýra þetta betur og sömuleiðis nefndi hæstv. ráðherra að einn stærsti gallinn væri að það hefði ekki verið gert á sínum tíma eins og með Símann. En, herra forseti, þetta er ekki náttúrulögmál og eins og hæstv. ráðherra sagði áðan þá er hægt að breyta lögum. Við þurfum kannski að gera það í þessu tilfelli. Þetta er nefnilega bara ákvörðun ríkisvaldsins og ég spyr því aftur: Af hverju var sú leið ekki farin?