151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[17:21]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir gott nefndarálit og góða ræðu um það. Mér þótti tillaga hans, um breytingu á lögum um tryggingagjald, ansi forvitnileg. Bæði vegna þess að þetta er bara góð hugmynd en líka vegna þess að hún er kannski ekki jafngóð og hún gæti verið. Þá er ég að líta til tillögutextans, þar sem segir að þetta gildi um laun eða þóknanir manna sem hefja störf hjá gjaldskyldum aðila á tímabilinu og ráðnir eru af atvinnuleysisskrá eða voru án atvinnu við upphaf ráðningar.

Án þess að ég haldi að þetta verði stórvægilegt vandamál gæti þetta skapað hvata til þess hreinlega að segja fólki upp störfum og ráða jafnvel sama fólkið aftur til að geta fengið þennan afslátt.

Ég spyr bara hvort hv. þingmaður hafi hugleitt þennan möguleika. Er ekki hreinlega ástæða til, í ljósi aðstæðna í hagkerfinu almennt, og í ljósi þess að tryggingagjaldið fjármagnar Atvinnuleysistryggingasjóð — og við þurfum á því að halda að hann sé mjög öflugur um þessar mundir, en hann er mjög erfiður og skaðlegur á margan hátt fyrir hagkerfið — að sleppa hreinlega öllum orðunum sem koma á eftir ártalinu 2021 í tillögu hv. þingmanns?