151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[18:06]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ágætisspurning og ég árétta að ég er ekki endilega á móti því að efnahagslegir hvatar séu notaðir til að hvetja fólk á ýmsa vegu. Hins vegar finnst mér óheppilegt að ríkið sé að hvetja fólk til að fylgja stefnu ákveðinna stjórnmálaflokka varðandi neysluhegðun og slíkt sem er í rauninni það sem áfengisgjaldið gerir og fleiri gjöld. Við höfum vissulega hvata og það má segja að virðisaukaskattur sé svona hár í þessu landi vegna þess að upprunalega vildi ríkið hvetja fólk til að kaupa færri hluti sem kostuðu gjaldeyri. Þetta er ákveðinn hluti sögunnar sem gleymist mjög oft þegar við tölum um okkar opna hagkerfi. Þetta er í rauninni mjög regressífur skattur, þetta er mjög skaðlegur skattur fyrir almenning. En nóg um það.

Kolefnisgjaldið er nú þegar farið að bíta samkvæmt þeim skýrslum sem ég hef skoðað. Það bítur hins vegar ekki nógu fast og Landvernd nefndi í áliti sínu að það væri alveg tilefni til hækkunar. Þeir byggja það á ákveðnum greiningum sem ég hef ekki kynnt mér sjálfstætt en 30% hækkun væri kannski eitthvað sem við ættum að vera horfa í. Hitt er annað mál að skaðinn sem kolefni veldur loftslaginu, hækkun hitastigs o.s.frv., þar er erfitt að slá á tiltekna krónutölu. Við gætum við verið að tala um þúsundir milljarða og jafnvel milljarða milljarða skaða fyrir alla heimsbyggðina ef við endum í verstu mögulegu niðurstöðu. Þá er kannski spurning á hvaða tímapunkti við förum að taka þann hugsanlega framtíðarkostnað með í reikningana, þ.e. að úthrifin (Forseti hringir.) séu rétt reiknuð. En hvernig á að reikna þau rétt, það kann ég ekki.