151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[15:46]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innleggið. Hv. þingmaður talar um að það sé áberandi hve mikið sé talað um efnahagsleg áhrif. Já, þarna eru vissulega tækifæri sem kannski ekki síst tengjast uppbyggingu utan þjóðgarðsins, þ.e. í sveitarfélögum sem liggja að hálendinu. Það er fyrst og fremst það sem þessi efnahagslegu áhrif vísa til. Hv. þingmaður kemur líka inn á jaðarsvæði og talar um að þeim verði dreift eins og brauðmolum út um allt svæðið. Ég er kannski ekki alveg sammála því af því að með jaðarsvæðunum var í rauninni verið að bregðast við athugasemdum, m.a. náttúruverndarhreyfingarinnar. Í frumvarpsdrögunum var þetta þannig að þau virkjunarsvæði sem nú þegar eru á þessu svæði voru hluti af þjóðgarðinum og það var gagnrýnt. Það var brugðist við þeirri gagnrýni með því að afmarka þau þannig að þau séu á sérstökum svæðum sem nefnast jaðarsvæði og ekki hluti af þjóðgarðinum.