151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[15:54]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Meginviðfangsefni samtala minna við sveitarfélögin á þessu ári hefur verið að greiða úr áhyggjum þeirra vegna skipulagsvalds sveitarfélaga. Það gerði ég ásamt sveitarfélögunum þannig að fallið var frá því fyrirkomulagi sem núna er í Vatnajökulsþjóðgarði, þ.e. að stjórnar- og verndaráætlanir sem unnar eru fyrir þjóðgarðinn eru ekki bindandi fyrir skipulag sveitarfélaga eins og þetta frumvarp er fram sett. Það er til þess að mæta kröfum sveitarfélaganna. Það þýðir að ef eitthvað er í stjórnar- og verndaráætlun sem einhverju einu sveitarfélagi hugnast ekki og vill ekki taka upp í skipulag sitt þá þarf viðkomandi sveitarfélag ekki að gera það. Þannig hefur kröfum sveitarfélaganna um að skipulagsvaldið sé óskert verið mætt. Þau sveitarfélög sem ég ræddi við, í sumar sérstaklega og í haust, fögnuðu þessari breytingu.