151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[16:08]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og umræðuna hér og vil fá að taka undir með hv. þingmanni, það sem hann nefndi um væntumþykju fólks alls staðar á svæðinu gagnvart því ómetanlega svæði sem við ræðum hér í dag. Það er þessi væntumþykja sem ég held að við þurfum öll í sameiningu að ná utan um og passa upp á að fólki geti áfram þótt vænt um þetta svæði, geti áfram fengið að vinna að fjölmörgum verkefnum sem þar eru gerð, eins og í landgræðslu eða að merkja stíga, koma upp skiltum og öðru slíku sem verið er að gera á þessu svæði í dag. Þetta frumvarp ýtir undir að hægt sé að vinna slíkt áfram í samstarfi og auka sérstaklega í það sem vel er gert.

Mig langar að koma aðeins inn á það sem hv. þingmaður nefnir varðandi skipulagsvaldið. Þar finnst mér ekki alveg rétt farið með og vil þess vegna benda á 16. gr. frumvarpsins um réttaráhrif stjórnunar- og verndaráætlunar. Ef borið er saman við drögin sem fóru í samráðsgátt fyrir jólin í fyrra var 1. mgr. í þessari grein frumvarpsins um að stjórnunar- og verndaráætlun væri bindandi fyrir skipulag sveitarfélaga. Ef hv. þingmaður les þessa grein í dag þá er ekki slíka 1. mgr. ekki að finna þar núna. Hvað þýðir þetta á mannamáli, ef við getum orðað það þannig? Jú, það er ekki verið að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögum.