151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:12]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur svarið. Ég held að það sé ágætissjónarmið sem kom fram hjá hv. þingmanni að leggjast þurfi yfir hvað sé raunhæft í tíma í þessum efnum. Gæti hv. þingmaður í seinna svari kannski komið inn á hvort hún eigi þar við hvaða tíma þingið þurfi til að vinna frumvarp um miðhálendisþjóðgarð, og eftir atvikum samþykkja það og klára, eða hvort það sé vinna sem eigi sér síðan stað á grundvelli þeirrar lagasetningar? Þar er grundvallarmunur á. Ég get ekki séð að neitt vit sé í að hraða lagasetningunni með þeim hætti sem hér er gert, einmitt í ljósi þess hversu umfangsmikið þetta er.

Annað vakti athygli mína í framsögu hv. þingmanns, þegar þingmaðurinn fór yfir fyrirvarana. Hv. þingmaður nefndi að um nokkur þessara atriða væri nú þegar vel búið, ég held að þingmaðurinn hafi orðað það svo. Gæti þingmaðurinn kannski vinsamlegast komið inn á það hvaða atriði það eru í fyrirvörunum sjö og áherslupunktunum sem Framsóknarflokkurinn telur vera vel frá gengið í frumvarpinu eins og það liggur fyrir núna, bara svona til hagræðingar, svo að þá sé ekki sett sérstök áhersla á þá punkta? Það er erfitt fyrir einhvern sem er ekki í þingflokki Framsóknarflokksins að átta sig á því hvaða punktar þykja vel frágengnir, eða vel um þá búið eins og þingmaðurinn orðaði það, og hverjir þarfnast sérstakrar skoðunar eða jafnvel umbyltingar að mati þingflokks Framsóknarflokksins.