151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[17:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð. Það ætti ekki að koma á óvart að ég hef töluverðar efasemdir um það. Hér eru margþætt atriði og svo maður fari örlítið í söguna þá var ég í hinni svokölluðu þverpólitísku nefnd sem byrjaði vinnu við að skoða hvort eitthvert vit væri í þessu yfir höfuð og hvernig útfæra skyldi málið þannig að sem best sátt og mest vit væri í. Það er skemmst frá því að segja að ég sá ástæðu til þess á tilteknum tímapunkti að segja mig frá því verki, kannski sérstaklega vegna þess ég taldi alltumlykjandi samráðið, sem mikið var rætt um, fyrst og fremst vera sýndarsamráð þegar á reyndi. Það er tónn sem hefur endurómað í rauninni alveg frá þeim tíma sem málið var lagt fram, byrjaði með kynningu og var síðan í skýrslu, sem hópurinn sem ég hafði þó sagt mig úr lagði til ráðherra, í allan síðasta þingvetur og þar til núna. Heyrst hefur frá hagsmunaaðilum, sérstaklega úti á svæðunum, sveitarfélögum, fyrirtækjum sem standa í rekstri innan þess svæðis sem miðhálendisþjóðgarði ætlað er að ná utan um, útivistarfólki o.s.frv., að fulltrúarnir sem málið bera fram hafi mætt á svæðið, haldið fundi, vissulega hlustað en helst ekki tekið mark á neinu. Það er ekkert samráð. En það er engu að síður sú staða sem er uppi í málinu og ekkert bendir til að hún sé að breytast. Ég hef ekki séð þann mun á því máli sem nú er lagt fram og málinu eins og það var lagt upp í fyrra sem ætti að verða til þess að einstaklingar, sveitarfélög eða fyrirtæki teldu málið miklu betur búið nú en þá. Þetta var sögulegi inngangurinn sem ég vildi hafa á þessum tímapunkti.

Ég gagnrýndi það á sínum tíma, eftir að ég varð þess áskynja, að menn teldu ástæðu til að taka bara tillit til fárra atriða í undirbúningsvinnunni. Það er orðin lenska hér í þinginu á meðal ráðherra að stofna svokallaðar þverpólitískar nefndir um eitt og annað, en þegar á reynir virðist tilgangur nefndanna oft helst vera sá að geta á síðari stigum vísað til þess að allir flokkar hafi haft aðkomu að nefndinni jafnvel þó að ekki hafi verið hlustað á eitt einasta atriði sem frá þeim kom. Það er auðvitað markmið að múlbinda aðila í pólitískri umræðu. Það getur ekki verið gott, hvorki hvað lýðræði varðar né efnislega meðferð og gæði mála. Ég beini því inn í þennan sal og til þeirra ráðherra sem til heyra, ég held að það hafi dregið úr þessu sem betur fer, en þessu verður að linna. Ráðherrar verða að bera ábyrgð á sínum málum, bera þau fram sjálfir og verja þau. Og síðan þurfa ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir auðvitað að hindra að við verjum deginum eins og við gerðum í gær, við vörðum meira og minna öllum gærdeginum í umræður, kýting og rifrildi um mál sem kom á daginn að hér um bil enginn stuðningur er við hjá stjórnarflokkunum. Úr því fari verðum við að losna.

Næst langar mig að koma inn á skipulagsmálin. Auðvitað velkist enginn í vafa um að gagnrýni, sérstaklega sveitarfélaga landið um kring, hefur verið gríðarlega mikil á þetta mál og þótt smávægilegar aðlaganir séu gerðar á milli ára eru þær þeirrar gerðar að stóra myndin er óbreytt. Þeir fulltrúar sveitarfélaga sem hafa með ákveðnustum hætti komið fram núna á síðustu dögum og gagnrýnt þetta eru ekki fólk sem lítur á þessi plögg í fyrsta skipti. Það hefur djúpan skilning á því sem hér er um að ræða og talar af mikilli þekkingu. Okkur ber beinlínis skylda til að taka það alvarlega, sérstaklega þegar sömu aðilar láta vita af því að þau sjónarmið hafi verið höfð uppi allan feril málsins, alveg frá fyrstu svokölluðu samráðsfundum í því sem enn er kallað þverpólitískur hópur um undirbúning málsins. Ég veit ekki hversu sanngjarnt væri að kalla hóp þverpólitískan þegar fulltrúi eins flokks hefur sagt sig úr honum, en látum það liggja á milli hluta. Ég geri svo sem engan ágreining um að það nafn sé haft á þeim hópi.

Næst langar mig að koma inn á nauðsyn lagasetningar. Ég velkist mjög í vafa um hvort nauðsyn sé á þeirri lagasetningu sem hér er fyrirliggjandi. Það er hægt, að ég tel, að ná fram flestum þeim markmiðum, sem mörg hver eru ágæt, annaðhvort innan núverandi regluverks eða með miklu minna íþyngjandi leiðum. Hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega 3. gr. frumvarpsins í framsöguræðu sinni, sem er markmiðsgreinin. Þá ætla ég að fara í gegnum nokkra af þeim áherslupunktum sem þar eru. Þeir eru tíu í heildina. Ég ætla að nefna nokkra þeirra, með leyfi forseta:

„Markmið með friðlýsingu Hálendisþjóðgarðs samkvæmt lögum þessum er að: […]

2. Gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru, menningar og sögu þjóðgarðsins.“

Bíddu, þarf að stofna hálendisþjóðgarð til þess? Hefur það ekki verið raunin áratugum saman og auðvitað alla tíð? Það hefur tekist prýðilega um langa hríð og er ekki í verra fari en svo að erlendir ferðamenn njóta þess mjög að koma á svæðið og kynnast og njóta náttúru, menningar og sögu svæðisins, þannig að þetta er alveg hægt að gera án þess að stofna um það hálendisþjóðgarð.

Þá segir næst, með leyfi forseta:

„3. Auðvelda almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist.“

Þarf að stofna miðhálendisþjóðgarð eða hálendisþjóðgarð til að ná því markmiði fram? Aldeilis ekki. Þeim markmiðum er vel hægt að ná fram innan núverandi regluverks. Það er raunar gert, það eru þá helst takmarkanir á fjárveitingum til vegagerðar m.a. sem orsaka að ekki vinnst hraðar en raunin er.

Fjórða atriðið sem hér er komið inn á undir markmiðum hálendisþjóðgarðs er, með leyfi forseta:

„Stuðla að því að almenningur geti stundað útivist innan þjóðgarðsins í sátt við náttúru og menningarminjar.“

Er það vandamál? Ég vissi ekki til þess. Mér vitanlega hefur almenningur getað stundað útivist innan þess þjóðgarðssvæðis sem fyrirhugað er án nokkurra teljandi vandræða um langa hríð. Hvers vegna þarf að stofna sérstakan hálendisþjóðgarð til að ná þessu markmiði fram?

Nú er ég búinn að nefna þrjá af fyrstu fjórum liðunum. Áfram heldur. Ég ætla að stökkva yfir 5. liðinn og fara í 6. liðinn, með leyfi forseta:

„Þjóðgarðurinn verði vettvangur umræðu og ákvarðanatöku um landnýtingu innan þjóðgarðs og þróun hennar.“

Er ekki rétt að gera það áður en við stofnum hálendisþjóðgarð? Hér er verið að gera allt í vitlausri röð. Þetta eru markmiðin með málinu. Hvað er þá neðar í mikilvægisröðinni ef markmiðin eru svona veiklulega framsett? „Þjóðgarðurinn verði vettvangur umræðu og ákvarðanatöku um landnýtingu innan þjóðgarðs og þróun hennar.“ Eigum við ekki að byrja á þessu? Þetta er allt hálfundarlegt, því miður.

Áfram yfir í sjöunda markmiðsatriðið, með leyfi forseta:

„Stuðla að rannsóknum og fræðslu um þjóðgarðinn …“

Er eitthvað því til fyrirstöðu að stunda rannsóknir og fræðslu um þau svæði sem þarna eru? Þetta eru mörg af glæsilegustu svæðum Evrópu, leyfi ég mér að segja, algjörlega mögnuð, sem ferðamenn heimsækja í miklum mæli og Íslendingar sömuleiðis, fyrir utan auðvitað þá sem beinlínis nýta svæðið. Þarf að stofna hálendisþjóðgarð til að stuðla að rannsóknum og fræðslu um hálendi Íslands? Þetta er einhver vitleysa, einhver meinloka. Ég les næst áttunda atriðið, með leyfi forseta:

„Endurheimta vistkerfi sem hafa raskast.“

Þetta er áfram af sama meiði. Þetta er atriði sem er algerlega vandalaust að viðhafa og framkvæma undir núverandi regluverki og er raunar gert. Sum okkar hér inni kannast til að mynda við Landgræðsluna og bændur og aðrir hagsmunaaðilar á svæðunum standa í margvíslegum uppbyggingarverkefnum sem ganga m.a. út á að endurheimta vistkerfi. Það þarf ekki að stofna hálendisþjóðgarð til að ná þessu markmiði fram. Aftur er verið að gera þetta allt flóknara og tyrfnara en það þarf að vera.

Síðan er tíunda atriðið sem ég ætla leyfa mér að nefna hérna, með leyfi forseta:

„Stuðla að samvinnu og samstarfi við félög og sjálfboðaliða um málefni landsvæðisins.“

Ég ítreka: Hver er þörfin fyrir að stofna hálendisþjóðgarð til að ná fram þessum markmiðum? Þeir aðilar sem hafa mestar áhyggjur af því hvernig málum er fyrir komið í þessu frumvarpi eru einmitt félög og sjálfboðaliðar sem hafa mesta ástríðu og hagsmuni af þessum svæðum. Þetta eru bændurnir, gæslumenn landsins. Þetta eru fyrirtækin sem veita þjónustu sína á þessum svæðum. Þetta eru útivistarfélögin sem hugsa til þess með hryllingi að mál fari í svipaðan farveg og er á ýmsum svæðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Áhyggjurnar eru mestar hjá þeim sem tíunda markmiðsgreinin fjallar um, að nú skuli stuðla að samvinnu við þessa hópa og þetta fólk. Væri ekki ágætt að stjórnvöld tækju sér tak ef þörf er á og gerðu þetta? Til þess þarf ekki að stofna hálendisþjóðgarð. Því miður er verið að gera allt í öfugri röð í þessu máli. Það er nú því miður viðtekið og algengt hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna að skynsamleg tímaröð hluta virðist ekki vera það sem leikur henni best í hendi. Skipulagið er ekki gott og framkvæmdin enn verri á löngum köflum.

Það var eiginlega alveg nauðsynlegt að fara í gegnum þessi markmiðsatriði og ég vil vekja athygli á því að þó að ég hafi ekki farið í gegnum nema sjö af þessum tíu markmiðsatriðum sem eru í 3. gr. frumvarpsins, þá eru hin þrjú þeirrar gerðar að ég hefði allt eins getað farið í gegnum þau líka. Markmiðin með stofnun hálendisþjóðgarðs, eins og þau eru sett fram í frumvarpinu sjálfu, eru ekki betur grunduð en þetta. Það ætti að vera okkur nægt tilefni til að fara okkur hægt. Þetta er ekki ákvörðun sem við ætlum bara að slá í og úr með. Þegar sú ákvörðun er tekin er einfaldlega búið að setja þetta mikla landsvæði undir regluverk og formfestu hálendisþjóðgarðs. Út úr því verður ekki bakkað með svo einföldum hætti.

Nú fer málið, að aflokinni þessari umræðu, til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngunefnd þar sem ég er í formennsku. Ég mun auðvitað, þó að ég hafi efasemdir um málið, sinna því eins og öllum öðrum málum, af fremsta heiðarleika og samviskusemi, til að það fái sanngjarna og góða málsmeðferð. Ég hvet þingmenn og félaga mína í hv. umhverfis- og samgöngunefnd til þess að fara varlega í þessum efnum. En ég er nú ekki búinn með nema um þriðjung af þeim punktum sem ég ætlaði að koma inn á hér. Ég sé að ekki eru nema nokkrar sekúndur eftir af tíma mínum og vil ég biðja forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá svo ég geti komið þeim punktum til skila á eftir sem ég tel nauðsynlegt að koma hér fram við 1. umr.