151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[19:20]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég reyndi að hlusta vel og ég beið eftir að heyra rök fyrir þessari afstöðu. Ég heyrði í rauninni ekkert annað en óhefta og takmarkalausa íhaldssemi. Samkvæmt þeim fáu rökum sem ég heyrði í ræðu hv. þingmanns hefði ekki verið hægt af stað með rekstur heilbrigðiskerfisins vegna þess að við höfðum náttúrlega enga þekkingu eða reynslu af slíkum rekstri. Við höfðum náttúrlega enga reynslu af vegakerfi á sínum tíma eða hvað það nú er annað sem við höfum í þessu landi.

Ég er alveg opinn fyrir mörgum rökum gegn þessum þjóðgarði, en að segja að við kunnum þetta ekki eru rosalega léleg rök þegar við vitum að við höfum alla burði til að læra. Að segja að enginn kunni þetta er augljóslega rangt þegar við vitum að til eru þjóðgarðar sem eru töluvert stærri en þessi, t.d. í Bandaríkjunum. Þar hafa þjóðgarðakerfi verið til í 156 ár og þekking og reynsla er til staðar. Það er hægt að bregðast við hér á landi með því að nýta okkur þá þekkingu sem byggst hefur upp þar.

Ég er ekki að segja að þetta verði auðvelt, ég er ekki að segja að þetta verði í fullkominni sátt og ég er ekki að segja að allir séu hamingjusamir með þetta. Þvert á mót er fullt af rökum gegn núverandi fyrirætlunum. En mig langar bara til að spyrja hv. þingmann aftur: Er hann virkilega að segja að við Íslendingar séum einhvern veginn það óhæf sem þjóð að við getum ekki tekið okkur stórt og mikilfenglegt verkefni fyrir hendur vegna þess að við kunnum það ekki og þurfum að bíða og byggja upp reynslu í tugi ára? Getum við ekki gert örlítið betur um það?