151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[19:25]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér stofnun hálendisþjóðgarðs. Það er ljóst af þeim mikla fjölda þingmanna sem taka til máls í 1. umr. og bíða þess að taka máls áður en málinu er vísað til þinglegrar meðferðar, að þetta er töluvert hitamál. Í raun endurspeglar umræðan hér umræðuna í samfélaginu. Við þingmenn allir, ekki síst við sem sitjum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, höfum fengið gríðarlegan fjölda skriflegra erinda, formlegra jafnt sem óformlegra; símtöl, fundarbeiðnir, hvatningar o.s.frv. Þessi erindi, símtöl, fundabeiðnir, hvatningar og bréf hafa verið alls konar. Ég kem aðeins nánar að því á eftir.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er stofnun hálendisþjóðgarðs eitt af forgangsmálunum. Tvær fyrri ríkisstjórnir höfðu kannað forsendur fyrir slíku verkefni og lagt áherslu á aukna vernd á þessu svæði. Það er kannski ágætt að fara aðeins yfir þá tímalínu. Það var árið 2016 — þrátt fyrir allt eru ekki nema fjögur ár síðan — sem nefnd um forsendur fyrir þjóðgarði á miðhálendinu var skipuð. Það var í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ári síðar, við ríkisstjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, var talað um aukna vernd miðhálendisins í stjórnarsáttmála. Núverandi ríkisstjórn er síðan með það mjög skýrt í stjórnarsáttmálanum að stofna skuli þjóðgarð. Þannig var málinu fram haldið. Skipuð var nefnd, þverpólitísk nefnd þingmanna og fulltrúa frá sveitarstjórnum og ráðuneyti, og henni falið það verkefni að vinna þessu máli ríkisstjórnarinnar framgöngu. Fyrir réttu ári skilaði sú nefnd skýrslu og tillögum til ráðherra. Nefndin hafði verið skipuð u.þ.b. einu og hálfu ári áður, í apríl 2018, og sat ég í henni fyrir hönd þingflokks Viðreisnar. Þeirri nefnd var ekki ætlað að fjalla um hvort stofna ætti þjóðgarð, heldur hvernig það yrði gert. Verkefni hennar voru m.a. að skilgreina mörk þjóðgarðsins, setja fram áherslur um skiptingu landsvæða innan hans í verndarflokka og fjalla um hugsanlegar aðkomuleiðir, svæðaskiptingu, rekstrarsvæði og þjónustumiðstöðvar. Þá var henni ætlað að gera tillögur að helstu áherslum í áætlunum sem tækju til stjórnunar-, verndar- og atvinnustefnu þjóðgarðsins og síðan lagasetningar þar sem m.a. yrði tekin afstaða til stjórnskipulags þjóðgarðsins.

Það getur verið býsna snúið fyrir þingmann í stjórnarandstöðu að taka afstöðu til þess að sitja í nefnd sem hefur samkvæmt skipunarbréfi ekki það verkefni að kanna grundvöll máls heldur beinlínis að vinna því framgöngu. Upphaflega var hugmyndin að nefndin ynni að frumvarpi um málið, en eftir samtöl innan nefndar, þegar hún var farin af stað, var því breytt, eðlilega. Ég hef að öðru leyti bara gott eitt um störf nefndarinnar að segja. Við höfðum víðtækt samráð og starfið var mjög gegnsætt. Ég hafði mikið gagn og gaman af þeirri vinnu sem þar fór fram. Síðastliðið haust tóku nefndarmenn síðan afstöðu til þess hvort þeir vildu vera á skýrslunni, sem er afurð nefndarinnar. Ég tók þá afstöðu að vera með eftir að hafa á vinnslutíma nefndarinnar komið sjónarmiðum mínum og Viðreisnar á framfæri. Þær athugasemdir lutu m.a. að fjármögnun hálendisþjóðgarðs og hversu mikilvægt það væri að verkefnið yrði frá upphafi fjármagnað með viðunandi hætti og byggðum við þar á reynslu og lærdómi af rekstri annarra þjóðgarða og friðlýstra svæða hér á landi. Aðrar athugasemdir lutu að atvinnuháttum og atvinnumálum á svæðinu, för fólks um svæðið, mismunandi ferðamátum, aðkomu sveitarfélaga og ýmsu sem kemur útfærslu á samspili náttúruverndar og nýtingar við.

Við í Viðreisn höfum alla tíð talað fyrir mikilvægi þess að auðlindir landsins séu nýttar með ábyrgum hætti samhliða öflugri náttúruvernd. Við viljum gera almenningi kleift að njóta þess fjársjóðs sem íslensk náttúra er til útivistar og veiða ásamt því að auka virðingu fyrir landinu og stuðla þannig að bættri umgengni. Jafnframt er hugsunin sú að styrkja byggð í nágrenninu, skapa atvinnu og aðstæður fyrir fjölbreyttar rannsóknir, auka víðsýni og tengja fólk. Það hefur verið leiðarljós okkar, ekki bara í aðkomu okkar að þessu máli heldur almennt í umhverfismálum. Líkt og fjölmargir Íslendingar hef ég verið ferðalangur í þjóðgörðum erlendis og notið þess mjög. Þar hafa þessir þættir farið saman, samkvæmt því sem ég hef upplifað og veit best, þ.e. náttúruvernd og upplifun ferðafólks samhliða atvinnuuppbyggingu. Á því ári sem liðið er frá því að hin þverpólitíska nefnd skilaði skýrslu sinni og frumvarp umhverfisráðherra leit dagsins ljós nokkrum dögum síðar, hafa umræður í samfélaginu sýnt mér að það skortir nokkuð á að við séum komin á þann stað hér. Síðari hluta desember, í sama mánuði og skýrslan var klár, voru drög að frumvarpi umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð lögð inn í samráðsgáttina. Þangað komu rúmlega 70 umsagnir, formlegar sem óformlegar, um frumvarpsdrögin og hefur þeim sannarlega ekki fækkað síðan. Gagnrýnisraddir í umræðunni sem fór af stað í kjölfarið voru margar og komu þær háværustu ekki síst úr röðum ríkisstjórnarflokkanna, svo áhugavert sem það nú er. Nú er ég ekki að segja að innan ríkisstjórnarflokkanna megi ekki vera skiptar skoðanir um þetta mál, sannarlega ekki, en við erum kannski komin að þeim punkti sem mér þykir skipta miklu máli í þessu samhengi og það er málsmeðferðin.

Aðeins um gagnrýnina fyrst. Hún sneri í upphafi ekki síst að því að þjóðgarðurinn myndi skerða verulega skipulagsvald þeirra sveitarfélaga sem eru við jaðar fyrirhugaðs þjóðgarðs, skerða forræði þeirra yfir landi innan landamæra sveitarfélaganna. Það heyrðust líka gagnrýnisraddir um að sveitarstjórnir fámennra sveitarfélaga myndu ráða hlutfallslega of miklu vegna þess að þær hefðu tækifæri til að skipa meiri hluta stjórna, bæði þjóðgarðsins og síðan rekstrarfélaga innan þjóðgarðsins, og hefðu þannig mjög mikið vald samanborið við aðra hagaðila; bændur, ferðaþjónustuaðila og náttúru- og umhverfisverndarsamtök. Ef einhverjir ættu að vera ósáttir við stjórnsýslu þjóðgarðsins þá væru það t.d. íbúar í þéttbýli sem hafa ekkert vald yfir þessu landi sem á að heita og er sameign þjóðarinnar. Þegar á leið fóru fleiri raddir að vera áberandi, ekki síst úr röðum ferðaþjónustuaðila sem töldu málið, eins og það var lagt fram, vega að atvinnugrein þeirra. Aðrir sem hagsmuna hafa að gæta varðandi atvinnu hafa líka verið háværir, ekki síst bændur.

Þegar þetta er tekið saman má heyra ákveðið stef í gagnrýni allra. Það má skipta því í annars vegar ríkisvæðingu og hins vegar miðstýringu. Þegar þetta stef bætist við það að ekki hefur verið lögð nægileg rækt við, að mínu mati og okkar í Viðreisn, að ná samstöðu meðal þjóðarinnar, þá er kannski kominn tími til að staldra aðeins við. Þegar við tökum saman hver staðan er í dag þegar málið er komið í þinglega meðferð er það eiginlega þannig að fjölmörg okkar njóta þess að ferðast um, dvelja tímabundið eða starfa á miðhálendi Íslands. Þetta er stór hópur sem orðinn er sérfræðingur í hálendisþjóðgarðinum og málefnum hans og eiginlega hvar sem maður kemur er fólk að rökræða, jafnvel að rífast um þjóðgarðinn en kannski ekki síst hugmyndina um þann þjóðgarð sem það telur að verið sé að setja á laggirnar. Óljós mynd af því skapar ákveðið óöryggi og óvissu. Staðreyndin er sú að í hugum margra er myndin mjög óljós. Það verður að segjast eins og er að hafi það verið ætlun ríkisstjórnarflokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar, að leggja þetta risastóra og mikilvæga mál fram í einhvers konar sátt þannig að allir væru að róa í sömu átt, vinna sameiginlega að því sem betur mætti fara, taka hagsmuni allra með í reikninginn, setja sig í spor annarra o.s.frv. eins og gert er þegar verið er að vinna að málum til að ná fram sátt, og hafi ætlunin verið að nýta tímann þannig það sem af er kjörtímabilinu þá hefur það mistekist.

Svo má líka snúa þessu við og segja að ef marka megi framgöngu einstakra stjórnarliða og hvernig þeir hafa nálgast málið leynt og ljóst á kjörtímabilinu sé ekkert endilega víst að ætlunin hafi verið að leita eftir sátt um málið. Og við stöndum hér. Ég trúi því að hæstv. umhverfisráðherra hafi unnið þetta mál af miklum heilindum og það er sorglegt að upplifa það sem alla vega ég upplifi, að ríkisstjórnin sé að missa þetta mikilvæga tækifæri úr höndum sér, tækifæri til að koma reglu á hálendið okkar í sátt við íbúa og sveitirnar sem breytingarnar hafa hvað mest áhrif á. Þetta er of stórt og of mikilvægt mál til að þvinga það af stað vegna þess að ekki er heldur beinlínis þörf fyrir það. Við þurfum fleiri að finna til þess að eiga virkilega hlutdeild í ávinningi af framkvæmdinni, af framtíðarfyrirkomulagi hálendisins. Umræðan þarf að fá að þroskast úti í samfélaginu áður en við klárum hana hér. Þannig vinna ríkisstjórnir að framgöngu þjóðþrifamála sem þessu. Við þurfum að halda fókus á það sem skiptir máli, vernd umhverfisins og náttúrunnar, breytt aðgengi þjóðarinnar að þeim náttúruperlum sem við eigum og virðingu fyrir þekkingu íbúa hinna dreifðari byggða landsins á nærumhverfi sínu. Það er nefnilega mikilvægt að koma upp öflugu þjóðgarðafyrirkomulagi. Þjóðgarðar eru ekki bara mikilvægir vegna náttúruverndar, þeir geta verið grundvöllur framfara, grundvöllur verðmætasköpunar, grundvöllur atvinnusköpunar ef rétt er staðið að málum. Í málinu eins og það er lagt fyrir hér vottar fyrir örlítilli forsjár- og miðstýringaráráttu í útfærslunni, sem er þessum þremur ríkisstjórnarflokkum svo sem ekki alveg ókunn.

Herra forseti. Niðurstöður starfshóps um endurskoðun á stjórnskipulagi Vatnajökulsþjóðgarðs sem skilaði af sér 2013 sýndi að það skiptir miklu máli að samstarf við hagaðila, sérstaklega í nágrenni við þjóðgarðinn, sé vel heppnað. Ef það mistekst í upphafi er erfitt að byggja aftur upp traust. Það er ástæðan fyrir því að ég tel ekki endilega að við getum anað af stað, klárað þetta og spólað svo til baka og lagað það sem aflaga hefur farið. Ég sé einfaldlega ekki þörfina á því. Samstarfið í Vatnajökulsþjóðgarði gengur vel á þeim svæðum þar sem verið hefur mikill áhugi sveitarstjórnarfólks á að gera eitthvað úr þessu, grípa tækifærin og skapa eitthvað, og þar sem fyrirtæki og einstaklingar sem hafa séð verðmæti í tilveru þjóðgarðs og tækifæri fyrir sig hafa náð að deila þeirri sýn með stjórnvöldum og hafa áhrif. Þannig virkar þetta. Hálendið okkar er ekki að fara neitt. Það er í góðum höndum eins og er, jafnvel að mati flestra sem vilja sannarlega sjá þennan hálendisþjóðgarð verða að veruleika. Það er erfitt að spóla til baka og byggja upp samstöðuna ef hann er stöðvaður í mikilli óeiningu. Við lærðum það á úttekt umhverfisráðuneytisins á stjórnskipulagi Vatnajökulsþjóðgarðs frá 2013. Það borgar sig ekki úr því sem komið er og úr því hvernig tíminn hefur verið nýttur síðustu þrjú ár að flýta sér of hratt. Sagan sýnir þetta og úttektir staðfesta það. Langsamlega besta útgáfan næst þegar hagaðilar og nágrannar þjóðgarðsins sjá sér hag í tilveru hans, taka þátt í stofnun hans, hafa áhrif á þróunina. Að þessu verðum við að stefna.

Nú þykir mér brýnt að hæstv. umhverfisráðherra og ríkisstjórnin öll spyrji sig hvort mögulega sé stóra málið hér raunverulega að strika út eitthvert atriði af löngum og ókláruðum verkefnalista til að geta tikkað í box eða hvort mögulega sé rétt að staldra við og vinna að þessari stofnun á þann hátt að sómi sé að og að þjóðgarðurinn búi frá upphafi til verðmæti fyrir alla aðila, til lengri og skemmri tíma. Einstaklingar og einstakir flokkar þurfa núna að leggja kappið til hliðar og viðurkenna að forsjáin þarf að vera leiðarvísir. Slík forsjá verður alla vega minn leiðarvísir í vinnu hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem fær þetta mikilvæga og jákvæða mál til afgreiðslu að umræðunni lokinni.