151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[19:40]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Þetta er merkisdagur. Frumvarp um stofnun hálendisþjóðgarðs er komið á dagskrá Alþingis. Sjálf hef ég tekið þátt í baráttufundum fyrir þetta mikilvæga málefni. Mér eru t.d. minnisstæð mótmæli sem Andri Snær Magnason rithöfundur og Björk Guðmundsdóttir tónlistarkona stóðu fyrir árið 2015 þegar þau boðuðu til blaðamannafundar í Gamla bíói á sama tíma og tónlistarhátíðin Iceland Airwaves var í gangi. Þau notuðu þann vettvang til að koma skilaboðunum um mikilvægi verndunar hálendisins á framfæri við heimspressuna. Í samvinnu við hópinn Gætum garðsins lýstu þau því yfir að það væri mikilvægt markmið að stofna þjóðgarð á miðhálendinu til að vernda óbyggðir Íslands. Það er því gleðilegt að málið sé komið á dagskrá í þinginu og í samfélaginu. Vænta má að málið komi til með að vekja athygli á alþjóðavísu fái það brautargengi hér innan þings.

Vert er að nefna að þessi hugmynd hefur oft verið umræðuefni á ráðstefnunni Arctic Circle þar sem málefni norðurslóða eru í fyrirrúmi. Þegar horft er til framtíðar er alltaf mikilvægt að hafa í huga hvernig hlutir hafa verið og þróast á undanförnum árum. Ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega á Íslandi þó að sú staða sé vissulega á klaka eins og sakir standa vegna Covid. Ferðamenn hafa í auknum mæli leitað upp á hálendi Íslands og sýnt svæðinu aukinn áhuga. Á sama tíma sjáum við að ósnortin víðerni í heiminum verða æ sjaldgæfari. Aukið upplýsingaflæði og nútímatækni með samfélagsmiðlum gera ferðamannastrauminn að sumu leyti ófyrirsjáanlegri. Reynslan hvað aðrar náttúruperlur varðar sýnir okkur að mikilvægt er að hlúa að óspilltum náttúruperlum. Ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá er það að við þurfum að vera hyggin í þessum efnum. Við þurfum að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir. Það á við um þennan málaflokk sem og marga aðra hér á þingi.

Forseti. Markmiðin með stofnun hálendisþjóðgarðs hafa verið vel reifuð í þessari umræðu í kvöld, náttúruverndin, skipulagið og tækifærin sem verkefnið skapar. Þetta hefur verið rætt, eins og t.d. landkynningin, sem þjóðgarðurinn yrði sannarlega á heimsvísu. En aðalmarkmiðið og það mikilvægasta að mínu mati er verndun náttúrunnar sjálfrar og sögu hennar. Íslensk náttúra er ein sú ómetanlegasta sem finnst í heiminum. Verði þetta frumvarp að veruleika verður um að ræða stærsta þjóðgarð Evrópu. Þetta snýst um náttúruna. Þetta snýst líka um manninn sjálfan. Í ærandi heimi nútímatækninnar, ofsahraða hans og hávaða mun öræfaþögnin verða dýrmætari og dýrmætari með tímanum og auðlind út af fyrir sig. Bara það að njóta þagnarinnar getur verið bóluefni við áreiti nútímans.

List og menning hefur sótt ríkulega í náttúru Íslands og náttúran hefur verið mikilvæg í listsköpun þjóðarinnar frá upphafi. Við þekkjum velflest málverk af landinu og náttúrunni, tónlist um náttúruna, bókmenntir sem tengjast náttúrunni, bæði beint og þar sem náttúran sjálf táknar sálarlíf mannsins. Náttúran er mikilvæg manninum. Rithöfundurinn Ófeigur Sigurðsson skrifaði bókina Öræfi, sem er eins og sálumessa um Ísland og öræfin sjálf. Sú staðreynd að þetta mál er loksins komið á dagskrá þingsins og hingað inn í þingsal gæti vel verið til marks um að nauðsynleg langtímahugsun er loksins að komast af einhverri alvöru inn í skipulag náttúru Íslands og umhverfisins. Mér finnst t.d. líklegt að komandi kynslóðir muni þakka okkur fyrir ef við berum gæfu til að láta þetta verða að veruleika. Oft hefur mér ekki þótt við Íslendingar kunna að meta landið eins og við ættum að gera og eins og erlendir gestir gera. Þó mátti sjá breytingu þar á síðastliðið sumar þegar þjóðin var svo gott sem nauðbeygð til að ferðast innan lands vegna heimsfaraldursins. Ég tel að mörgu leyti að sú vegferð hafi opnað augun okkar enn fremur fyrir þessari dýrmætu perlu sem við eigum.

Gagnrýni á málið hefur komið fram hér í þingsal í kvöld og alveg frá því að það barst í tal í íslensku samfélagi. Ég hygg að málið gangi til hv. umhverfis- og samgöngunefndar þar sem ég á áheyrnarsæti. Ég á von á því að þar fari fram málefnaleg meðferð og vönduð þingleg meðferð þannig að öll sjónarmið komi fram. Við munum a.m.k. taka þátt í því sjálf. Ég ætla að lesa aðeins upp úr stefnu okkar Pírata í umhverfismálum, með leyfi forseta:

„Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum. Á undanförnum áratugum hefur orðið ljóst að mannkynið er að ganga verulega á auðlindir jarðar og náttúru með fyrirsjáanlega hrikalegum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir. Ábyrg umgengni við náttúruna og sjálfbær nýting auðlinda eru nauðsynleg forgangsmál. Tökum fullt tillit til alþjóðlegra viðmiða og samninga í umhverfismálum og leyfum náttúrunni að njóta vafans.“

Eins og áður sagði hefur farið fyrir einhverri gagnrýni í umræðunni í kvöld. Það er eðlilegt. En ég ætla að enda þessa tölu mína á þeim orðum sem Jón Kalman Stefánsson rithöfundur lét falla í ræðu sinni um daginn á málþingi um stofnun hálendisþjóðgarðs.

„Afi minn heitinn hélt því gjarnan fram að Íslendingar væru með eindæmum þrasgjörn þjóð. Þrasgjörn, fundvís á deiluefni, og hvert okkar svo innilega sannfærð um að við hefðum rétt fyrir okkur, að það væri skálað í kampavíni bæði í himnaríki og helvíti í hvert sinn sem Íslendingar kæmust að sameiginlegri niðurstöðu í einhverju deiluefninu. Þessi eiginleiki er jafn hressandi og hann er óþolandi, bætti afi við, og flutti á endanum til Noregs í lok sjöunda áratugarins, með þeim orðum að lífið væri of stutt til að standa í eilífu þrasi.“

Ég vona a.m.k. að ekkert okkar sjái ástæðu til að flytja úr landi vegna þrass um þetta mál, enda snýst það einmitt um landið sjálft, náttúru þess og einstaka fegurð. Varðveitum þau gildi Íslands og sameinuðust um þetta verðmæta málefni sem er á borði okkar hér á Alþingi.