151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[20:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér langþráða hugmynd um þjóðgarð á hálendinu öllu. Það er ekki alls kostar ný hugmynd og í rauninni má segja að við höfum verið í generalprufu fyrir þetta mál, þessa breytingu, þennan þjóðgarð, í 15 ár með Vatnajökulsþjóðgarði. Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið tilraunastofa fyrir stjórnkerfið til að reyna sig við stýringu risastórs náttúruverndarsvæðis, sem Vatnajökulsþjóðgarður er og hálendisþjóðgarður verður mun stærri. Vatnajökulsþjóðgarður hefur líka verið áhugaverð tilraun í dreifstýringu, í því að færa valdið til að stýra svæðinu bæði til fólksins sem býr næst þjóðgarðinum og til almannaheillasamtaka, náttúruverndarsamtaka, samtaka áhugafólks um ferðamennsku, þeirra sem hafa ýmiss konar hagsmuni af því að þjóðgarðinum takist vel að sinna hlutverki sínu. Sú aðferð er útfærð í frumvarpi til laga um hálendisþjóðgarð þannig að sex umdæmisráð eiga að stýra jafnmörgum svæðum. Það kann sumum að virðast þungt og flókið en það snýst um að þessi garður, sem okkur er tíðrætt um að snúist um hjartað í landinu, hálendið, hafi beina tengingu við hjartað í fólkinu í nágrenni garðsins.

Á sama tíma og það er mjög jákvætt að heimamenn komi með beinum hætti að umsjón og vernd svæðisins þá megum við ekki gleyma því að við eigum þetta land öll saman, hvort sem við búum hér í Reykjavík eða á Austurlandi. Og í rauninni á heimurinn allur þetta svæði saman. Vatnajökulsþjóðgarður er á heimsminjaskrá UNESCO vegna þess að hann er einstakur en hann er líka á heimsminjaskrá vegna eiginleika sem hálendið allt býr yfir. Þess vegna er allt að sækja í þessu máli. Það er ekkert sem segir að vel útfærður hálendisþjóðgarður eigi ekki jafn mikið erindi á heimsminjaskrá í heild sinni og Vatnajökulsþjóðgarður.

Ríkisstjórnin hefur til þessa teflt fram þremur málum samhliða, í fyrsta lagi frumvarpi til laga um hálendisþjóðgarð, í öðru lagi þingsályktunartillögu um rammaáætlun 3 og í þriðja lagi frumvarpi um þjóðgarðastofnun. Núna erum við með bara þau tvö fyrrtöldu í höndunum. Einhvers staðar á leiðinni hefur þjóðgarðastofnunin orðið eftir. Það er miður vegna þess að sameiginlegt utanumhald um friðlýst svæði og þjóðgarða væri mjög til bóta vegna þess einfaldlega að við höfum lært það af þeim einingum sem hafa verið starfræktar á síðustu árum að þær eru oft of litlar til að geta sinnt hlutverki sínu nógu vel. Ríkisendurskoðun leiddi það í ljós þegar hún gerði stjórnsýsluúttekt á Vatnajökulsþjóðgarði að ýmislegt vantaði upp á miðlæga umsýslu garðsins. Úr því hefur verið bætt en einfaldir hlutir eins og starfsmannamál, skipulagsmál og það að vera með sérfræðinga í ýmsu reynast miklu auðveldari ef umsýslan er á einni hendi frekar en mörgum eins og er í dag. En gott og vel, við erum ekki með þjóðgarðastofnun til umræðu heldur aðeins hálendisþjóðgarðinn.

Mig langar hér í kvöld helst að tala um hve mikilvægt er að hálendisþjóðgarður standi undir nafni sem þjóðgarður, sem náttúruverndarsvæði, að hann uppfylli þá kröfu sem við gerum til hans, að staðinn sé vörður um þá ómetanlegu og einstöku náttúru sem við eigum þar. Mig langar sérstaklega að ræða samspil þjóðgarðsins og orkuöflunar á sama svæði. 23. gr. frumvarpsins fjallar um orkunýtingu. Þar segir að ráðherra eigi að skilgreina það sem heitir jaðarsvæði hálendisþjóðgarðs vegna orkunýtingar. Um er að ræða þrjú tilefni sem geta fallið þar undir, í fyrsta lagi virkjanir sem þegar eru til staðar. Þá þarf að skilgreina ramma utan um þær. Í öðru lagi eru virkjanahugmyndir sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar. Og í þriðja lagi eru síðan virkjanir í biðflokki þriðja áfanga rammaáætlunar sem gætu mögulega færst upp í nýtingarflokk og þyrftu þá að falla undir það að vera jaðarsvæði.

Ég hnýt strax um þetta orð, jaðarsvæði, vegna þess að ég skil jaðar sem ytri mörk. Þegar ytri mörk Vatnajökulsþjóðgarðs voru skilgreind á sínum tíma — virkjunarsinnar höfðu fengið fyrsta val á hálendinu og fyrir voru röskuð svæði í þágu orkunýtingar — stýrðu Hágöngulón vestan Vatnajökuls og Hálslón við Kárahnjúkavirkjun norðaustan jökulsins því hvar jaðar Vatnajökulsþjóðgarðs var dreginn. Hann var einfaldlega dreginn 5 km frá hinu raskaða svæði. Núna er jaðarinn samkvæmt frumvarpinu eitthvað sem getur náð miklu lengra inn í garðinn. Jaðarinn miðast í þessu tilviki við þá röðun sem birtist í þriðja áfanga rammaáætlunar sem hefur enn ekki verið samþykkt hér á Alþingi og er jafnvel til efs að eigi að samþykkja í þeirri mynd sem hún var unnin fyrir fimm árum. Árið 2016 lagði þáverandi hæstv. umhverfisráðherra rammaáætlun fyrir þingið eftir að hafa verið með tillöguna frá verkefnisstjórn og umsagnir almennings og félagasamtaka í höndunum í örfáa daga. Það náði ekki heilli viku. Hún gerði engar breytingar frá því sem verkefnisstjórn lagði til þrátt fyrir ótal ábendingar um virkjunarkosti sem skorti upplýsingar um eða virkjunarkosti sem af ýmsum ástæðum ætti í þágu varúðarsjónarmiða að færa úr nýtingarflokki í biðflokk. Það munum við væntanlega ræða í þaula þegar hæstv. umhverfisráðherra mælir fyrir óbreyttri rammaáætlun Sigrúnar Magnúsdóttur. Það er dálítið skondið að í umræðu sem einkennist svo mikið af ákalli um sátt og samráð sé jafnframt talað um að fylgja eigi þriðja áfanga rammaáætlunar þar sem samráðið var ekki virt og sáttin var töluvert meira í þágu sjónarmiða orkunýtingar en náttúruverndar. En gott og vel.

Jaðarsvæðin svokölluðu, sem væri kannski réttara að kalla einfaldlega iðnaðarsvæði fyrir virkjanir innan hálendisþjóðgarðsins, eru jú vissulega sum á jaðrinum, eins og Stóru-Laxár- eða Hólmsárvirkjanir sem eru í biðflokki, en Hágönguvirkjun er ekki á jaðrinum. Þar er í matsskýrslu talað um 11 km² iðnaðarsvæði og 76 km² nýtingarsvæði, gufuvirkjun sem mun í óbyggðum víðernum sjást víða að og hafa mikil áhrif á upplifun. Ekki verða Botnafjöll, Grashagi eða Sandfell, sem ramma af suðurjaðar Torfajökulssvæðisins, í jaðri hálendisþjóðgarðs ef af honum verður. Þar eru í biðflokki rammaáætlunar þrjár 90 MW gufuvirkjanir. Þetta ber þess helst merki að það hafi bara ekki náðst að ræða á milli stjórnarflokkanna hvað það er sem þjóðgarður þýðir. Hér er höfðinu barið við steininn og haldið til streitu fimm ára gömlum niðurstöðum verkefnisstjórnar rammaáætlunar frekar en að setjast bara niður og segja: Jæja, nú ætlum við að friðlýsa þetta svæði. Við ætlum að varðveita það um aldir alda fyrir komandi kynslóðir, í þágu landsins alls og heimsins alls. Þessi togstreita á milli stjórnarflokkanna endurspeglast ofboðslega vel í fyrirvara Framsóknarflokksins sem telur þrjár blaðsíður ef maður prentar hann vandlega út, 1.000 orð. Þetta eru sjö númeraðir liðir og nokkrir til viðbótar, sennilega Íslandsmet í stjórnarandstöðu innan ríkisstjórnarflokks. Það að heill stjórnarflokkur geri jafn viðamikla fyrirvara við stjórnarfrumvarp fær mann til að spyrja sig hvort yfir höfuð sé um stjórnarfrumvarp að ræða. Þegar annar heill stjórnarflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, gerir sambærilega fyrirvara verður sú spurning enn meira knýjandi.

Þetta var nú útúrdúr, herra forseti. Mig langaði að nefna það sem stendur í fyrirvara Framsóknarflokksins við 23. gr. um orkunýtingu þar sem flokkurinn segir að skrifa þurfi inn nýjan texta í greinina, með leyfi forseta:

„M.a. að orkukostir 3. og 4. rammaáætlunar verði teknir til skoðunar án tengingar í þjóðgarðinum …“

Það að orkukostir falli innan þjóðgarðs á engu máli að skipta. Það er krafa Framsóknarflokksins. Kostina á að skoða óháð því að þeir séu innan þjóðgarðsmarkanna. Þá er nú verndarsjónarmiðið farið að fara ansi halloka fyrir orkunýtingarsjónarmiðinu sem er áhyggjuefni. Ég held að það sé það eina sem við getum kallað það. Á öllu þessu máli sést að á síðustu þremur árum í samningaviðræðum milli stjórnarflokkanna hefur þurft að gera gríðarlegar málamiðlanir. Búið er að hengja saman rammaáætlun og frumvarp um hálendisþjóðgarð sem eiga í öllu eðlilegu árferði ekki að hanga saman. Friðlýsing hálendisins á ekki að vera á forsendum þess að hægt sé að nýta orku innan þjóðgarðsins. Hér er búið að hengja það saman en það virðist ekki duga. Í dag hafa stjórnarliðarnir, hver á fætur öðrum, komið upp og talað fyrir því að taka þurfi þessa málamiðlun, sem er ekki nógu græn þegar kemur að orkukostinum, og færa hana enn lengra í átt að orkunýtingu.

Ég hef verulegar áhyggjur, virðulegur forseti, af því að þegar kemur að því í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að meta á vogarskálum þá ómetanlegu náttúru sem á hálendinu er og þann efnahagslega skammtímaávinning sem felst í því að keyra áfram virkjanir á því svæði (Forseti hringir.) verði náttúran ekki látin njóta vafans.