151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni annað svarið. Mig langar bara að taka eitt lítið dæmi. Nú veit ég að hv. þingmaður þekkir efnisatriðin og getur mögulega komið inn á þetta þó að hann eigi ekki möguleika á andsvari aftur í þessum hringnum. Atriði sem ég hef áhyggjur af er t.d. í 15. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Hvert umdæmisráð vinnur tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir sitt rekstrarsvæði. Stjórn Hálendisþjóðgarðs fer yfir tillögur umdæmisráða, samræmir þær og vinnur stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn í heild.“

Síðan kemur sú setning sem ýmsir hafa áhyggjur af:

„Stjórnin getur gert breytingar á tillögum umdæmisráða að fenginni umsögn viðkomandi umdæmisráðs.“

Vissulega er tilskilið að fá umsögn viðkomandi umdæmisráðs en eins og samflokksmaður hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, sagði hér áðan þá gæti hann ekki ætlast til þess að menn tækju alltaf mark á því þegar samtal eða samráð væri haft við hann um einstaka atriði. Þarna er bara einfaldlega töluverð opnun. Mögulega verður hægt að fara yfir það í nefndinni hvernig þetta verður skilið. Þarna þykir til að mynda ýmsum að sé í rauninni svona opin leið fram hjá því að heimastjórnirnar, umdæmisráðin, hafi endanlega orðið um tiltekin atriði enda segir beinlínis að stjórnin skuli samræma tillögurnar. (Gripið fram í.) Já, en umdæmisráðin eru sex og það er þau sem er hægt að trompa.