151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[22:09]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að það er svolítið frískandi að hlusta á hv. þingmann hér uppi í ræðupúlti og minnir mann nú frekar á það þegar maður situr heima í stofu og fylgist með Alþingi en að sitja hér í þingsal.

Hv. þingmaður þekkir málið býsna vel og kom að því í nefndinni, eins og hann fór yfir. Í fyrsta lagi langar mig að segja að varðandi skipulagsvald sveitarfélaganna og þá umræðu að maður hefur skynjað það í samfélagslegu umræðunni að sveitarfélögin óttast mjög mikið um skipulagsvald sitt. Ég vona nú að við náum þá með samtali og vinnu með málið að hreinsa þá umræðu og leiðrétta hana. En ég velti líka fyrir mér 18. gr., um dvöl, umgengni og umferð í hálendisþjóðgarðinum. Ég finn fyrir því úti í samfélaginu að það er mikill ótti hvað það varðar. Við þingmenn höfum margir hverjir, og örugglega flestir, fengið töluvert af tölvupóstum á síðustu dögum þar sem sérstaklega er bent á þetta. Það virðist vera ótti þeirra sem nota hálendið mikið í dag að þeir geti það ekki eftir setningu þessarar löggjafar, ótti við að við séum að hefta för fólks um hálendið, hvort sem það er á vélknúnum ökutækjum eða með öðrum hætti, til að mynda á hjólum, hlaupandi eða hvað það kann að vera.

Þannig að mig langar að heyra aðeins frá hv. þingmanni hvernig umræðan hefur verið um það og hvernig hann getur fullvissað okkur um að fólk sem vill njóta hálendisins geti gert það áfram.