151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur verið ánægjulegt að upplifa og taka þátt í því hvernig þingið hefur sýnt styrk sinn á þeim erfiðu tímum sem hafa verið á þessu ári. Við höfum lagst á eitt til að ná lendingu á erfiðum tímum í stórum og mikilvægum málum. Það hefur þurft að taka ákvarðanir oft á skömmum tíma og þingið hefur unnið vel saman, farið vel ofan í mál og afgreitt þau á skömmum tíma. Það hafa verið settir gríðarlega auknir fjármunir í margs konar úrræði, fimm fjáraukar, eitthvað sem hefur ekki sést áður, og á næstu dögum, á morgun, ætlum við að byrja 2. umr. um fjárlögin. Þar er fram undan nánast endurskrifað fjárlagafrumvarp vegna þess að verið er að bæta svo vel í milli 1. og 2. umr. Það er heldur ekki sjálfgefið því að við erum að setja ríkissjóð í gríðarlegan halla sem framtíðarkynslóðir þurfa svo að vinna úr.

Ég byrjaði á því að segja að mér hefur þótt ánægjulegt hversu vel hefur tekist til hjá okkur þingmönnum og verð líka að segja að þetta sýnir okkur hvernig lýðræðislegt samtal hefur þróast og hversu mikilvægt það er. Þess vegna finnst mér ánægjulegt að við skulum hafa skrifað undir þinglokasamning, að hann hafi tekist svona snemma án alls fjaðrafoks og annars slíks. Fólk lagði sig fram um að ná saman í þeirri von um að við gætum lokið þinghaldi á skynsamlegum tíma. Meiri hlutinn hefði að sjálfsögðu viljað koma öllum sínum málum, eins og gefur að skilja, til meðferðar í þinginu en við þurfum að mætast og það gerðum við núna og gekk vel. Ég ætla bara að lýsa yfir ánægju minni með þetta samstarf okkar þingflokksformanna (Forseti hringir.) því að ég held að það sé til eftirbreytni hvernig til hefur tekist.