151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kosningalög.

339. mál
[22:26]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Rökin fyrir því væntanlega að ekki sé sama þörf lengur fyrir að menn geti hent utankjörstaðaatkvæði sínu og kosið upp á nýtt eru náttúrlega þau að framboðsfrestur rennur út á sama tímapunkti og utankjörstaðaatkvæðagreiðsla hefst. Það standa ekki lengur þau rök til þess að einhverjar óvæntar aðstæður hafi komið upp af því tagi að allt í einu séu komin fram ný framboð sem menn dauðlangi til að kjósa sem þeir vissu ekki af áður. Eftir stendur að sjálfsögðu að mönnum geti snúist hugur eða eitthvað annað gerst og þá má alveg velta því fyrir sér, þótt það sé eilítið flóknara, á að hafa þetta þannig að menn geti eftir sem áður, þó að þeir hafi kosið utan kjörfundar, væntanlega þá fyrst og fremst þeir sem eru hér innan lands, mætt á kjörstað og allt í einu uppgötvað að þeir gátu mættu á kjörstað, því að ég minni á að almenna reglan á náttúrlega að vera að menn kjósi utan kjörstaðar af því að þeir telji líklegt að þeir verði hindraðir í því að kjósa á kjörstað. En auðvitað er það ekki alltaf veigamiklar ástæður eins og við vitum. Svo geta verið enn aðrar ástæður eins og þær bara að af farsóttarástæðum vilji menn ekkert vera að fjölmenna á kjörstað, að þá geti þetta átt við.

Ég giska á, án þess að vilja fara langt með það, að að einhverju leyti hafi menn verið að horfa til þeirrar einföldunar sem í þessu er fólgin, t.d. gagnvart utankjörstaðaatkvæðagreiðslunum að utan og jafnvel póstkosningunni. Ég held að það væri ekki hægt að skipta þessu upp því að menn geta alveg eins komið óvænt heim frá útlöndum og viljað kjósa á kjörstað eins og að þeir væru hér heima. Þá held ég að ég hafi bara eiginlega sama svarið, að þetta geti menn skoðað. Varðandi það að lögbinda kynjahlutföll. Nei, nefndin hélt sig mjög trú þeirri faglegu vinnuforsendu sinni að blanda ekki slíkum stjórnmálalegum álitamálum inn í sína vinnu.