151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[10:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég var framsögumaður meiri hluta á meirihlutaáliti allsherjar- og menntamálanefndar og gerði grein fyrir þessu máli við 2. umr. Málið gekk aftur til nefndar eftir 2. umr. Við fengum til okkar gesti og afgreiddum málið svo aftur út án nefndarálits, enda komu ekki fram upplýsingar á þeim fundum sem nefndin hélt, sem kalla á breytingar á málinu. Mér finnst hins vegar mikilvægt að fara yfir nokkra þætti, sér í lagi með tilliti til ræðunnar sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hélt áðan.

Á fundum nefndarinnar, bæði á meðan málið var til umræðu í nefndinni fyrir 2. umr. og eins og á þeim fundum sem haldnir voru milli 2. og 3. umr., kom skýrt fram að þetta frumvarp synjar börnum ekki um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Milli 2. og 3. umr. fengum við á fund okkar landlækni sem gerði grein fyrir því að landlæknisembættið hefði skilað inn umsögn við frumvarp um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, þar sem landlæknisembættið mælti með því að skipaður yrði starfshópur. Það var síðan gert. Það frumvarp sem við ræðum í dag er afrakstur vinnu þess starfshóps. Hjá landlækni kom fram að vel hefði tekist til með þá vinnu og að málið væri vel úr garði gert.

Umsögn kom frá Læknafélagi Íslands milli 2. og 3. umr. og mælir félagið með samþykkt frumvarpsins. Þá fékk nefndin einnig á fund sinn lækna sem verið höfðu í þeim starfshópi sem skiluðu tillögum sem frumvarpið byggir á.

Mig langar aðeins að fjalla um þann starfshóp því að látið hefur verið að því liggja að það hafi verið félagasamtök og áhugafólk sem komu að gerð þessa frumvarps. Það er vissulega rétt að í starfshópnum sem skipaður var til að fara yfir þessi mál og byggja upp frumvarp var annars vegar einstaklingur skipaður frá Samtökunum ´78 og hins vegar einstaklingur tilnefnd af Intersex Íslandi. En aðrir í þessum starfshópi voru lögfræðingur með sérþekkingu á réttindamálum barna, lögfræðingur með sérþekkingu á mannréttindum, barnaskurðlæknir, siðfræðingur, barnainnkirtlalæknir, sérfræðingur í klínískri barnasálfræði og kynjafræðingur, þannig að það að láta eins og að málið hafi ekki verið unnið af sérfræðingum er einfaldlega ekki rétt og mér finnst mjög mikilvægt að það komi fram við umræðu málsins.

Herra forseti. Við í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar teljum, líkt og við gerðum við 2. umr., að hér sé um að ræða mál þar sem vandað hefur verið til verka. Það hefur tekið sinn tíma að semja þetta frumvarp og fara með það í gegnum kerfið. Til þess hafa verið fengnir færir sérfræðingar á breiðu sviði. Ég ítreka að með þessu frumvarpi mun engum börnum verða synjað um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu en hins vegar viljum við einnig tryggja að ekki séu gerðar óþarfar aðgerðir á börnum, sem skiptir svo sannarlega máli. Ég mæli því með því hér eftir sem hingað til að þetta frumvarp verði samþykkt.