151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[11:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Mér fannst ekki á orðum hans að hann hefði misskilið mig á einn eða annan hátt eða væri að reyna að snúa út úr fyrir mér á einn eða annan hátt. En hv. þingmaður sagði í andsvari sínu, sem kristallast í því sem við höfum verið að halda fram í allri þessari umræðu, að frumvarpið sem við erum að ræða núna, væri af félagslegum toga en ekki læknisfræðilegum. Það er það sem við tölum um að flæki hlutina, þegar við erum annars vegar með þessi ódæmigerðu kyneinkenni, sem vissulega má laga með læknisfræðilegu inngripi, en er þó mjög áberandi félagslegt vandamál, á móti því að við erum hins vegar með þessi útlitseinkenni, galla á sköpunarverkinu, ef við getum kallað það svo, sem laga þarf með læknisfræðilegu inngripi.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann, af því að mér finnst hann alveg skilja þetta mjög vel og mér líður ekki eins mikið úti á túni og áður eftir að við erum búnir að eiga þessi skoðanaskipti, vegna þess að það er mjög algengt og hefur verið algengt í þessari umræðu að málflutningur okkar Miðflokksmanna í þessu máli hafi verið affluttur og við höfum verið sakaðir um alls kyns fordóma í garð hinna og þessara sem eru alls ekki til staðar vegna þess að við höfum einlægan vilja til þess að ung börn sem glíma við þennan heilbrigðisvanda fái lausn á því eins fljótt og hægt er. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Er hann ekki sammála mér um að þetta frumvarp hefði betur verið í tvennu lagi, þ.e. annars vegar það sem lýtur að þessum ágöllum sem hægt er að laga (Forseti hringir.) og þarf að laga með læknisfræðilegum aðgerðum, og hins vegar að einangra hitt málið til þess að vera ekki að flækja líf beggja hópa?