151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[12:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þótt ekki hafi verið bein spurning í andsvari hv. þingmanns þá verð ég í þessu samhengi að draga aftur fram það sem ég kom inn á áðan í umsögn Intersex Íslands þar sem fjallað er um sérákvæðið sem Intersex Íslands leggur til að fellt verði niður, það velkist enginn í vafa um það sjónarmið þeirra samtaka. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndarstarf var mun minna en það hefði þurft að vera. Bæði tók nefndin seint til starfa og einnig er ljóst að Covid-19 setti mikið strik í starf nefndarinnar. Fundir voru töluvert færri á vordögum og mun minni tími var til umræðu en hefði þurft til. Sem dæmi þá var engin umræða um „micro-penis“ fyrr en á lokafundi nefndarinnar þegar læknir innan nefndarinnar bar það mál upp. Sú umræða var ekki kynnt fyrir fundinn og því ljóst að enginn nefndarmaður var fyllilega undirbúinn undir þá umræðu.“

Þarna er verið að lýsa lokafundi nefndarinnar. Hvers lags vinnubrögð eru þetta? Þetta er grundvöllur lagasetningarinnar. Það er algerlega með ólíkindum að hér komi framsögumaður meiri hluta nefndarálitsins upp í pontu í andsvari og haldi því fram að hlutir séu vaxnir með allt öðrum hætti en þeir eru greinilega samkvæmt umsögn Intersex Íslands, sem var einmitt í þessu nefndarstarfi.