151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[12:22]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég nefndi í ræðu minni eru menn núna að reyna að hlaupa í skjól læknisfræðinnar þrátt fyrir að hafa ekki unnið þetta mál út frá læknisfræði og gert mjög lítið með þá hlið málsins, enda gerðu langflestir sem komu að þessu máli það á öðrum forsendum en lækningum. Svo kemur hv. þingmaður hér og í sumum tilvikum margtelur hann sama fólkið, þá fáu lækna sem þó hafa komið að þessu. En ég minni hv. þingmann á hvað þetta fólk hefur þó verið að benda á. Það hefur ítrekað mikilvægi þess að ekki sé hvikað frá þeim þó takmörkuðu undantekningum sem enn eru til staðar, undantekningunum sem meiri hluti nefndarinnar undir forystu hv. þingmanns leggur til að verði skoðaðar sérstaklega og flýtt endurmati á hvort eigi að heimila yfir höfuð. Læknarnir meta það sem svo að það besta sem þeir geti gert í stöðunni sé að draga þó alla vega línu í sandinn þarna og reyna að verja þessar undantekningar. (PállM: Vill þingmaðurinn ekki svara …?) (SilG: Hann getur það ekki.) Hv. þingmaður kallar hér fram í. Hann hefur annað tækifæri til að koma í andsvar. En ég er að útskýra þetta fyrir hv. þingmanni sem var á nefndarfundi og heyrði þar mat læknanna sem var nú ekki eins afdráttarlaust og hv. þingmaður gefur til kynna. (PállM: Þeir styðja það.) Þeir styðja fyrirvarana við frumvarpið. (PállM: Þeir styðja frumvarpið.) Þeir styðja frumvarpið ef það er tryggt, sem ekki er gert hér, herra forseti, að aðgangur verði áfram veittur að tilteknum læknum. En þeir styðja ekki ákvæði sem hindra lækningar barna. (PállM: Það ákvæði er ekki í frumvarpinu.) (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Ekki samtal.)

Ekki einn læknir hefur haldið því fram að það sé réttlætanlegt að setja hindranir gagnvart lækningum barna þegar foreldrar telja það þeim fyrir bestu, ekki hvað síst þegar hægt er að veita lækninguna tiltölulega einfaldlega. (SilG: Það er bull, Sigmundur, og þú veist það.) — Ekki einn læknir. Vísið mér á það mat, herra forseti, (SilG: Það er bara bull …) að læknir hafi sagt að slík hindrun sé réttlát. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Það ber að gefa ræðumönnum hljóð.)