151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

forsendur við sölu Íslandsbanka.

[15:39]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég nefndi ekki tímasetningu. Ég nefndi forsendur og skilyrði. Þær forsendur og þau skilyrði liggja ekki fyrir. Ég veit ekki hvernig stendur á því. Ríkisstjórnin lætur eins og hvítbókin sé hlutlaust fræðirit sem felur í sér svör við öllum leyndardómum alheimsins frekar en að vera niðurstaða ákveðins pólitísks stefnumótunarferlis þar sem niðurstaðan var að miklu leyti gefin sem frumforsenda vinnunnar. En ég spyr aftur: Hvers vegna er ekki hægt að búa til einfaldan tékklista fyrir svona aðgerðir og ráðast svo í framkvæmdina þá og því aðeins ef skilyrðin eru uppfyllt? Hvers vegna ekki? Hvers vegna þarf þennan asa, að klára fyrir kosningar, því að það virðist vera planið, frekar en að sammælast um þverpólitískan tímaramma yfir lengri tíma, eins og gert hefur verið, t.d. í Noregi? Og hvers vegna vill ríkisstjórnin koma þessum eignarhlut á markað, í verð, korteri fyrir kosningar og það í miðri mestu efnahagslægð síðari tíma?