151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kallar eftir því að rökstuðningur fylgi því sem sagt er. Ég hef aldrei vikist undan því að þau áform sem við gerum grein fyrir byggja á þeim upplýsingum sem eru handfastar. Eins og kemur fram í inngangi mínum hér snúast þær upplýsingar fyrst og fremst um þegar staðfesta samninga og þau áform sem samningarnir fela í sér um það á hvaða ársfjórðungi afhending eigi sér stað. Afhendingaráætlun sem kveður á um skýrari dagsetningar liggur síðan aðeins fyrir í þeim mæli sem ég hef gert grein fyrir. Þegar ég segi að útlit sé fyrir að við náum því markmiði sem ég hef gert grein fyrir og lýtur að því að ná að bólusetja þorra þjóðarinnar á fyrri hluta ársins þá er ég að vísa til þess.

Enn er það svo, og það er víst alþekkt þegar lyf eru annars vegar og bóluefni, að breytingar verða á afhendingaráætlun. Það er hins vegar einstakt einmitt núna, þegar allar þjóðir heimsins horfa á afhendingaráætlanir og vilja vita hvenær efnin koma, að meira óþols gætir í samfélögum heimsins. Ég hef hins vegar séð það á þeim vikum eða mánuðum sem eru að baki í þessu ferli að áformin taka breytingum, stundum þannig að það verður til þess að hægja á ferlinu en stundum að herða á því. Það er því ekki nóg með það, virðulegur forseti, að við þurfum að halda áfram að snúa bökum saman og sýna samstöðu í þessu verkefni heldur þurfum við líka að sýna þolgæði og úthald.