151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:42]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Þegar ég vísa í forgangshópana þá verð ég bara að nefna að það blasir við að það eru 90.000 manns sem ég held að allir hljóti að vera sammála um að ríður á að fái bólusetningu, ég held að við séum sammála um það, hæstv. ráðherra og ég, a.m.k. miðað við þann forgangslista eru þetta 90.000 manns. Einmitt vegna þess að hæstv. ráðherra nefnir að menn hafi ekki vitað hvaða bóluefni myndi virka og fyrir hvaða hópa, þeim mun meiri ástæða hefði ég haldið að hefði verið til þess að leitast við að fá yfir 90.000 skammta frá öllum þessum framleiðendum sem í boði eru.

Þess vegna langar mig að spyrja: Hvað er nú verið að semja um mikið magn við fyrirtæki sem heitir CureVac, og hæstv. ráðherra nefndi að ríkið væri í viðræðum við?

Nei, það er rétt, hæstv. ráðherra hefur nokkuð til síns máls þegar hann nefnir að það sé kannski erfitt fyrir okkur þingmenn eða almenning að átta sig á því í hvaða ferli þessi mál hafa verið vegna þess að ekkert hefur verið opinberað um neinn þessara samninga. Það er auðvitað mjög bagalegt og hefur verið vísað til þess að í samningunum séu ákvæði um trúnað. Ég sé þó að á heimasíðu Evrópusambandsins eru samningarnir birtir, a.m.k. rakst ég á einn samning við þennan títtnefnda CureVac-framleiðanda þar sem samningurinn er birtur, að frátöldum einhvers konar ákvæðum sem rétt og skylt er að séu ekki opinber. En mér finnst þetta bagalegt og ég hvet þess vegna ráðherra til að opinbera meira og hafa þessa samninga upp á borðunum, að teknu tilliti til einhverra trúnaðarupplýsinga sem rétt er að leynt fari, þó að ég átti mig ekki á því í hvaða tilgangi það ætti nú að vera.

En mig langar í lokin að spyrja þá líka: Hvaða áform hafa stjórnvöld? Hvert er markmiðið með bólusetningunni? Ef við gefum okkur að 90.000 manns verði bólusettir, hvenær svo sem það verður, tilefni til hvaða aðgerða yrði sá árangur? Það finnst mér þurfa að liggja skýrt fyrir, hvað menn ætla með þessum bólusetningum. Ef 90.000 manns verða bólusettir, er það ekki tilefni til verulegra róttækra breytinga í sóttvarnaaðgerðum?