151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:54]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Hún var bæði skýr og skilmerkileg skýrslan sem hæstv. heilbrigðisráðherra flutti hér. Mér finnst ástæða til þess að við rifjum það upp að þótt okkur finnist tíminn hafa verið lengi að líða er ekki komið alveg ár frá því að byrjað var að þróa bóluefni við þessari veiru. Mér finnst eiginlega bara afskaplega merkilegt í öllu tilliti séð að við séum yfirleitt að ræða stöðu bólusetningar hér á þessum tímapunkti. Kannski ber það vitni þess hversu hratt vísindunum fer fram og við eigum auðvitað fyrst og fremst að fagna því. Hvað er langt síðan við byrjuðum að bólusetja? Það er mánuður, ekki satt, sirka 29. desember? Og við höfum nú þegar bólusett ríflega 10.000 manns, eins og ráðherra fór yfir, að hluta eða öllu leyti.

Mér finnst að við verðum líka að velta því upp hvað við stöndum ótrúlega vel, ekki bara miðað við Evrópuþjóðir heldur Ameríku líka. Við höfum getað slakað á samkomutakmörkunum. Við erum að horfa upp á óeirðir í Hollandi vegna hertra takmarkana, ástandið er náttúrlega búið að vera svakalegt Í Bretlandi og við getum haldið áfram að telja lengi.

Það er dálítið áhugavert alltaf að fylgjast með umræðunni, ekki síst síðustu daga, vegna frests á komu bóluefna þegar fólk er að velta því upp hvort það sé rétt eða ekki að við séum að gera samninga við Evrópusambandið. Ég var ánægð með það þegar Ursula von der Leyen setti niður fótinn í samskiptum sínum við AstraZeneca. Eins og við þekkjum hefur ESB auðvitað fjárfest töluvert í framleiðslunni, líkt og ráðherrann kom inn á í ræðu sinni. Ég held að öllum sem vilja horfast í augu við það hljóti að vera það ljóst að Ísland, þetta litla land, hefði ekki getað samið sig eitthvað fremur í gegn. Hefðum við átt að taka sénsa? Og með hvaða leyfum hefðum við átt að taka hér inn bóluefni? Ég velti því bara upp af því að við viljum auðvitað fylgja þessum hópi. (Forseti hringir.) Mig langar í þessu samhengi að spyrja, af því að við erum líka alltaf að tala um vottorð, hvort ráðherrann geti farið aðeins yfir það. Ég kannast við að hafa lesið eitthvað um Heilsuveru, (Forseti hringir.) að fólk ætti að geta fengið vottorð þar, bæði þeir sem hafa fengið Covid og þeir sem eru búnir að fá bólusetningu.